Fundargerð aðalfundar 2023

Kex Hostel, Reykjavík
Þriðjudagurinn 2. maí
Fundarstjóri: Eygló Rúnarsdóttir
Fundarritari: Gísli Felix Ragnarsson

Skýrsla stjórnar

Gjaldkeri og varaformaður kynna skýrslu stjórnar. Yfir veturinn voru haldnar 8 fræðslur en ein féll niður vegna dræmrar skráningar. Haldið var áfram með hringferð sem gekk ekki nógu vel en verður haldið áfram næsta starfsár. Veittar voru viðurkenningar fyrir framúrskarandi lokaverkefni og farin var vel heppnuð fræðsluferð til Malmö og Gautaborgar sem var styrkt af Erasmus+, en félagið er komið í áskrift að styrkjum á vegum áætlunarinnar.

Skýrslur hópa og nefnda

  1. Ferðanefnd var skipuð á starfsárinu sem náði ekki flugi og endaði með að gjaldkeri félagsins tók að sér skipulag vel heppnaðrar fræðsluferðar.
  2. Félagið er með fulltrúa í Náum áttum hópnum og felur það starf í sér þátttöku í skipulagi og framkvæmd mánaðarlegra fræðsluerinda.
  3. Félagið hefur fulltrúa í valnefnd hvatningarverðlauna í frístundastarfi á vegum Reykjavíkurborgar og hefur það samstarf lukkast vel.
  4. Veittar voru viðurkenningar fyrir framúrskarandi verkefni í Tómstunda- og félagsmálafræðum eins og síðustu ár.

Reikningar félagsins

Gjaldkeri leggur fram reikninga félagsins til samþykktar og eru þeir samþykktir einróma.

Starfsáætlun og fjárhagsáætlun næsta árs

Gjaldkeri kynnir starfsáætlun og fjárhagsáætlun næsta árs. Fyrirhuguð er fræðsluferð til Chicago sem verður farin vor 2024. Fræðsluáætlun og hringferð verður haldið áfram. Stefnt að aukinni virkni stjórnar í samfélagslegri umræðu og veiti sveitarfélögum aðhald eftir þörfum. Fjárhagsáætlun næsta árs er eftirfarandi:

  • Fræðslur: 100.000 krónur
  • Hringferð: 600.000 krónur
  • Kynningar, heimasíður og Zoom: 75.000 krónur
  • Annað: 250.000 krónur

Árgjald

Stjórn leggur til að árgjald taki breytingum og verði hækkað um 1.000 krónur og verði 4.500 krónur að viðbættum innheimtukostnaði á næsta starfsári. Breytingin er samþykkt einróma með öllum greiddum atkvæðum.

Lagabreytingar og skipulag

Tvær lagabreytingar bárust aðalfundi með löglegum fyrirvara.

  • Gjaldkeri gerir grein fyrir lagabreytingatillögu 1 og er hún eftirfarandi:
    4. grein um félagsaðild: Aukaaðild geta þeir sótt um sem stunda nám í tómstunda- og félagsmálafræði. Þeir hafa einungis áheyrnar- og tillögurétt á aðalfundi og greiða helming félagsgjalds. Lagt er til að leggja niður 2. lið 4. greinar um félagaaðild. Tillagan er samþykkt einróma með öllum greiddum atkvæðum.
  • Gjaldkeri gerir grein fyrir lagabreytingatillögu 2 og er hún eftirfarandi:
    Lagt er til að bæta við eftirfarandi lið í grein 4 um félagsaðild: Hægt er að skrá sig úr félaginu skriflega. Úrsögn úr félaginu skal tilkynna skriflega til stjórnar og telst viðkomandi genginn úr félaginu þremur mánuðum eftir að úrsögn hefur borist enda sé hann skuldlaus við félagið. Greiði fagfélagar ekki tvær greiðslur til félagsins, falla þeir af félagsskrá. Uppgjör á skuld eða samkomulag þar að lútandi leiðir til fullrar fagaðildar að nýju. Tillagan er samþykkt einróma með öllum greiddum atkvæðum, í samræmi við umræður sem fram fóru á aðalfundi um breytingu á orðalagi.

Kosning stjórnar og varamanna

Fyrir kosningu til stjórnar og varamanna var fráfarandi stjórnarmönnum veittar viðurkenningar fyrir störf sín í þágu félagsins.

  1. Kosning formanns til eins árs. Sitjandi formaður, Ágúst Arnar Þráinsson, býður sig fram til áframhaldandi setu. Engin mótframboð bárust og er hann því sjálfkjörinn.
  2. Kosning tveggja meðstjórnanda til tveggja ára. Sveinborg Petrína og John Bond bjóða sig fram. Ekki bárust önnur framboð og eru þau því sjálfkjörin.
  3. Kosning eins meðstjórnanda til eins árs. Ása Kristín Einarsdóttir sendi inn framboð fyrir aðalfund. Ekki bárust mótframboð og er hún því sjálfkjörin.
  4. Kosning tveggja varamanna til eins árs. Ásgerður Breiðfjörð Ólafsdóttir sendi inn framboð fyrir aðalfund og Eygló Rúnarsdóttir býður sig fram á fundinum. Ekki bárust önnur framboð og eru þær því sjálfkjörnar.  

Kosning skoðunarmanna reikninga

Árni Guðmundsson og Hulda Valdís Valdimarsdóttir bjóða sig fram til áframhaldandi setu sem skoðunarmenn reikninga og voru þau kjörin með lófaklappi.

Önnur mál

  1. Málefni Frítímans, vefmiðils félagsins. Árni Guðmundsson spurði um stöðu vefmiðils félagsins og hófust umræður um framtíð hans í kjölfarið. Niðurstaða aðalfundar er að Árni Guðmundsson tekur að sér að endurvekja miðilinn og verður John Bond með honum í því verkefni.
  2. Faglegt frístundastarf í leikskólum. Aðalfundur FFF furðar sig á vinnubrögðum í tengslum við endurskipulagningu tengdri betri vinnutíma í leikskólum sem kveða á um að í fjarveru faglærðra leikskólakennara, vegna styttingar vinnuvikunnar, verði tekið upp tómstunda/frístundastarf á leikskólastiginu. Aðalfundur kannast ekki við að neitt samráð hafi verið haft við sérfræðinga á vettvangi frístundastarfs, hvorki innan háskólasamfélagsins né innan starfa fagfélaga vettvangsins.