Lög félagsins

1.grein – Nafn og varnarþing

Félagið heitir Félag fagfólks í frístundaþjónustu, skammstafað FFF. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2.grein – Tilvist

FFF er félag fagfólks sem starfar á vettvangi frístunda og hafa markmið félagsins að leiðarljósi.

3.grein – Markmið

Markmið félagsins eru:

 • Að leggja áherslu á mikilvægi fagmennsku í frítstundaþjónustu
 • Að leggja áherslu á mikilvægi sérþekkingar fagfólks í frístundaþjónustu
 • Að efla fagvitund og samheldni fagfólks í frístundaþjónustu með því að skapa félögum vettvang til umræðna og skoðanaskipta
 • Að vera leiðandi í faglegri umræðu og stjórnvöldum til ráðgjafar um frístundaþjónustu
 • Að efla samstarf við önnur félög sem starfa á vettvangi frístunda, innan lands sem utan
 • Að hvetja til aukinna rannsókna og eflingar menntunar á sviði frístundaþjónustu
 • Að standa fyrir námskeiðum og fræðslu fyrir starfsmenn á vettvangi frístunda
 • Að fara í námsferðir út fyrir landssteinana á þriggja ára fresti

4.grein – Félagsaðild

Rétt til félagsaðildar eiga einstaklingar sem:
Lokið hafa háskólanámi í tómstunda- og félagsmálafræðum eða hafa starfað í 6 mánuði á vettvangi frítímans.

Umsóknir um aðild eru afgreiddar af stjórn félagsins. Stjórnin tilnefnir málskotsnefnd ef þurfa þykir.

Stjórnin gerir tillögu að félagsgjaldi og er tillagan afgreidd á aðalfundi. Félagsgjald er innheimt einu sinni á ári miðað við 15. september.

Hægt er að skrá sig úr félaginu skriflega. Úrsögn úr félaginu skal tilkynna skriflega til stjórnar og telst viðkomandi genginn úr félaginu þremur mánuðum eftir að úrsögn hefur borist enda sé hann skuldlaus við félagið. Greiði fagfélagar ekki tvær greiðslur til félagsins, falla þeir af félagsskrá. Uppgjör á skuld eða samkomulag þar að lútandi leiðir til fullrar fagaðildar að nýju.

5.grein – Stjórn félagsins

Stjórnarkjör fer fram á aðalfundi. Stjórn félagsins skal skipuð formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda. Auk þess skulu kosnir tveir varamenn.

Stjórnarkjöri skal haga þannig:

 • Kjósa skal formann í sérstakri kosningu og er kjörtímabilið eitt ár.
 • Kjósa skal 4 stjórnarmeðlimi að auki sem skipta með sér verkum. Kjörtímabilið eru tvö ár og eru tveir í kjöri annað hvert ár.
 • Kjósa skal 2 í varastjórn og er kjörtímabilið eitt ár.
 • Kjósa skal 2 skoðunarmenn reikninga og kjörtímabilið er eitt ár.

Stjórnin fer með málefni félagsins á milli aðalfunda og framfylgir stefnu þess.

Stjórnarfundi skal halda að jafnaði einu sinni í mánuði á tímabilinu september til maíloka.

Stjórn skal halda fundargerð sem aðgengileg er öllum félagsmönnum.

Firmaritun félagsins er í höndum gjaldkera og formanns.

6.grein – Aðalfundur

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins og skal haldinn í maí ár hvert. Til hans skal boða skriflega með a.m.k. 14 daga fyrirvara. Fundarboðinu skal fylgja fundardagskrá.

Dagskrá aðalfundar:

 • Skýrsla stjórnar
 • Skýrslur hópa og nefnda
 • Reikningar félagsins
 • Starfsáætlun og fjárhagsáætlun næsta árs
 • Árgjald
 • Lagabreytingar og skipulag
 • Kosning stjórnar og varamanna
 • Kosning skoðunarmanna reikninga
 • Önnur mál

Aðalfundi skal stjórnað eftir almennum fundarsköpum. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála. Við lagabreytingar þarf þó 3/5 greiddra atkvæða til þess að breyting sé löglega samþykkt.

Aðalfundur telst löglegur og ályktunarhæfur sé löglega til hans boðað. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa skuldlausir félagar.

Stjórn félagsins skal boða til aukaaðalfundar ef þörf krefur eða ef 1/3 félaga óskar þess. Skal hann boðaður á sama hátt og aðalfundur. Aukaaðalfundur hefur sama vald og aðalfundur. Á aukaaðalfundi skulu aðeins tekin til umfjöllunar þau mál sem koma fram í fundarboði.

7.grein – Fjármál

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Reikningar skulu lagðir fram á aðalfundi, yfirfarnir af kjörnum skoðunarmönnum. Hagnaði af rekstri félagsins skal varið í þágu félagsins.

8.grein – Félagsfundur

Félagsfundi skal stjórnin halda þegar ástæða þykir til. Til félagsfunda skal boða með tilkynningu til félaga eða með auglýsingu. Stjórn er skylt að boða til fundar innan 14 daga ef a.m.k. fjórðungur fullgildra félagsmanna krefst þess og tilgreinir fundarefni.

9.grein – Lagabreytingar

Lögum þessum er aðeins hægt að breyta á löglega boðuðum aðalfundi eða aukaaðalfundi.

Tillögur um lagabreytingar verða að hafa borist stjórn félagsins 7 dögum fyrir aðalfund. Stjórn félagsins skal kynna tillögur að lagabreytingum með bréfi til félagsmanna a.m.k. 3 dögum fyrir aðalfund.

10. grein – Siðanefnd

Samkvæmt siðareglum félagsins skal tilkynna brot á þeim til stjórnar félagsins. Stjórn félagsins skal tilnefna siðanefnd í hverju máli fyrir sig ef þurfa þykir. Siðanefnd fjallar um einstök mál og úrskurðar um hvort brot hafi átt sér stað og ályktar í kjölfarið til stjórnar félagsins um frekari viðbrögð.

11.grein – Félagsslit

Félagsslit skulu rædd á aðalfundi eða aukaaðalfundi og þarf 2/3 félagsmanna til að samþykkja félagsslit. Við félagsslit skulu eignir félagsins flytjast með félaginu ef um sameiningu við annað félag er að ræða, annars til líknarmála sem stjórnin leggur til.