Yfirlýsing

Í ljósi umræðu og aðstæðna í samfélaginu um þessar mundir og fyrirætlanir Reykjavíkurborgar um niðurskurð á starfi félagsmiðstöðva sjáum við í stjórn Félags fagfólks í frístundaþjónustu (FFF) okkur knúin til að senda frá okkur eftirfarandi yfirlýsingu um stöðu mála.

Félagsmiðstöðvar hafa löngu sannað gildi sitt frá því að þær fyrstu skutu upp kollinum hér á landi í þeirri mynd sem við þekkjum þær í dag, fyrir tæplega 50 árum síðan. Öll þekkjum við „íslenska módelið“ nokkuð vel þar sem náðist ótrúlegur árangur í þágu ungmenna í landinu með samstilltu átaki allra hlutaðeigandi aðila, sem við stærum okkur gjarnan af í alþjóðlegum samanburði. Í dag blasir hins vegar við okkur „nýr raunveruleiki“ eins og lögreglan hefur orðað það í fréttatilkynningum- og viðtölum síðustu misseri. Áhættuhegðun meðal ungmenna hefur aukist til muna og fréttir af vopnaburði og alvarlegum árásum milli ungmenna eru orðnar algengari nú en áður, þar sem lögregla ítrekar aukna hörku í þessum málum. Það skýtur því skökku við á tímum sem þessum að Reykjavíkurborg, sem hefur verið leiðandi afl í fagmennsku á vettvangi frístundastarfs, greini frá áformum um niðurskurð á starfsemi félagsmiðstöðva. Félagsmiðstöðvar gegna einmitt lykilhlutverki í að sporna við og vinna gegn þessari alvarlegu stöðu sem blasir við okkur og halda utan um hópinn sem á hættu á að lenda á jaðrinum.

Í kjölfar þeirra frétta að stytta eigi opnunartíma félagsmiðstöðva að kvöldi hefur fagfólk á vettvangi félagsmiðstöðva risið upp og mótmælt þeirri ákvörðun með vísan í þá stöðu sem blasir við okkur í dag. Meginrök tillögunnar virðast vera að breytingin sé ákveðin í samræmi við útivistartíma unglinga, sem er til kl. 22:00 og því sé eðlilegt að félagsmiðstöðvar loki kl. 21:45 til að skapa ekki togstreitu milli félagsmiðstöðva og heimilanna. Í útivistarreglum barna- og unglinga er skýrt tekið fram að „bregða má út af reglunum fyrir síðartalda hópinn þegar unglingar eru á heimleið frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu“. Því hafnar stjórn FFF þeirri rökfærslu að opnunartími í þeirri mynd sem hann er í dag hafi orðið þess valdandi að togstreita hafi skapast milli heimila og félagsmiðstöðva, enda gefur reynsla fagfólks á vettvangi af samskiptum við foreldra annað til kynna.

Það er mat fagfólks á vettvangi félagsmiðstöðva að ef opnunartíminn verði styttur með þessu móti sé borgin þar með að skapa svigrúm fyrir aukna hópamyndun þar sem reynslan sýnir að eftir að opnun lýkur fara ekki allir beint heim. Með því að stytta opnunartíma lengist sá tími sem unglingar geta hópast saman utan umsjónar fagfólks og því fylgir aukin hætta á áhættuhegðun. Mikilvægt er að horfa til þessa áhættuþáttar en til að draga megi úr áhættunni þarf að auka við vettvangsstarf í kjölfar opnana til að auka öryggi ungmenna á leið heim frá félagsmiðstöðinni.

Við í stjórn FFF stöndum þétt við bakið á kollegum okkar og félagsfólki og skorum á borgarstjórn að hafna tillögunni um skerðingu opnunartíma félagsmiðstöðva og standa þannig vörð um það faglega starf sem Reykjavíkurborg hefur byggt upp með velferð barna og unglinga að leiðarljósi. Horfum frekar til „íslenska módelsins“ sem við höfum svo gaman af því að státa okkur af við löndin í kringum okkur og spyrjum okkur hvernig við getum nýtt reynsluna frá þeim tíma til að bregðast við þeim „nýja raunveruleika“ sem við stöndum frammi fyrir. Öll viljum við snúa þeirri þróun við og það að skerða opnunartíma félagsmiðstöðva er óheillaskref í átt frá því markmiði.

Stjórn Félags fagfólks í frístundaþjónustu.

Ágúst Arnar Þráinsson, formaður
Íris Ósk Ingadóttir, varaformaður
Sveinborg Petrína Jensdóttir, gjaldkeri
Gísli Felix Ragnarsson, ritari
Elísabet Þóra Albertsdóttir, fræðslustjóri