Gleymda starfsstéttin

Þriðjudaginn 21. desember 2021.

Í ljósi nýrra sóttvarnatakmarkana stjórnvalda sem gripið verður til á miðnætti annað kvöld og vegna viðtals heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra við fjölmiðla í hádeginu í dag, finnum við í stjórn Félags fagfólks í frístundaþjónustu (FFF) okkur knúin til að koma eftirfarandi á framfæri.

Á vettvangi frístunda starfar fjöldi fólks sem hefur það að leiðarljósi að bjóða börnum og unglingum sem sækja frístundaheimili og félagsmiðstöðvar upp á faglegt frístundastarf. Frá upphafi faraldursins hefur þetta frábæra fagfólk okkar unnið undir miklu álagi og staðið í ströngu við að finna nýjar leiðir til að halda úti eins hefðbundinni og óskertri starfsemi og gildandi takmarkanir hafa boðið upp á hverju sinni. Á frístundaheimilum er yngsta stigi grunnskóla boðið upp á faglegt frístundastarf frá lokum skóladags til klukkan fimm en félagsmiðstöðvarnar sækja börn á miðstigi og unglingastigi jafnan síðdegis og á kvöldin.

Í viðtali sínu við fjölmiðla í dag ræddi heilbrigðisráðherra samfélagslegt mikilvægi leikskóla og hrósaði í leiðinni starfsfólki og stjórnendum þeirra, sem við í stjórn FFF tökum að sjálfsögðu heilshugar undir. En það sem ekki allir vita er að bæði frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum er gert, líkt og leikskólum, að halda starfsemi sinni opinni á milli jóla og nýárs. Þá eru fyrirtæki hvött til að auka fjarvinnu starfsfólks þessar þrjár vikur sem nýjar takmarkanir eiga að gilda, en það er vitanlega ekki mögulegt fyrir okkar fagfólk.
Ekki var minnst einu orði á það mikilvæga starf sem fagfólk á vettvangi frítímans sinnir, hvorki í máli heilbrigðisráðherra eða forsætisráðherra né í reglugerðinni sem tekur gildi á miðnætti annað kvöld. 

Við viljum því á þessum tímapunkti ítreka að við sem störfum á vettvangi frítímans erum orðin langþreytt á að vera, oftar en ekki, gleymda starfstéttin hjá stjórnvöldum í sóttvarnamálum sem og öðrum mikilvægum málum.
Við lýsum okkur því hér með reiðubúin til samtals og samráðs þegar ákvarðanir eru teknar um okkar störf héðan í frá.

Stjórn Félags fagfólks í frístundaþjónustu

Ágúst Arnar Þráinsson, formaður
Íris Ósk Ingadóttir, varaformaður
Gísli Felix Ragnarsson, ritari
Sveinborg Petrína Jensdóttir, gjaldkeri
Elísabet Þóra Albertsdóttir, fræðslustjóri