Fundargerð Aðalfundar 2021

Staðsetning: Frístundamiðstöðin Ársel og Zoom
Fimmtudaginn 20. maí 2021
Fundarstjóri: Árni Guðmundsson
Fundarritari: Gísli Felix Ragnarsson

Fundur settur kl. 17:30

Formaður kynnir skýrslu stjórnar

Heimsfaraldur kórónuveirunnar setti eðlilega mikið mark á starfsemi félagsins á liðnu starfsári félagsins. Farið var í kynningarátak í ár og plakat með dagskrá félagsins send öllum sveitarfélögum landsins. Í haust var tekin ákvörðun um að kaupa aðgang að Zoom fjarfundarkerfinu svo halda mætti starfsemi félagsins hvað fræðslur varðar en í ár voru haldnar ýmist fræðslur eða umræðufundir mánaðarlega. Fyrirhuguð skemmtun félaga í desember féll niður vegna veirunnar skæðu. Formaður og varaformaður tóku sér einnig sæti í „Sófanum“ – podcast þætti Samfés.

Skýrslan er samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Ársreikningar

Gjaldkeri kynnir ársreikninga félagsins og ber þá fram til samþykktar með fyrirvara um að skoðunarmenn eiga eftir að yfirfara reikninga. Ársreikningar eru samþykktir með öllum greiddum atkvæðum.

Starfs- og fjárhagsáætlanir næsta árs

Formaður kynnir starfsáætlun og fjárhagsáætlun næsta árs og boðið er upp á umræður.

 • Spurt er hvort rými sé fyrir fræðsluferð næsta ár. Formaður segir áætlað að ræða það sérstaklega undir önnur mál.

Ársgjald

Stjórn leggur til að gjaldið haldist óbreytt, 2.500 krónur auk bankagjalds. Tillagan er samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Lagabreytingar og skipulag

Fyrri lagabreytingartillaga stjórnar er eftirfarandi:

6.grein – Aðalfundur

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins og skal haldinn í maí ár hvert. Til hans skal boða skriflega með a.m.k. 30 daga fyrirvara. Fundarboðinu skal fylgja fundardagskrá.

Verður

6.grein – Aðalfundur

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins og skal haldinn í maí ár hvert. Til hans skal boða skriflega með a.m.k. 14 daga fyrirvara. Fundarboðinu skal fylgja fundardagskrá.

Gengið er til atkvæða um tillöguna. Meirihluti samþykkir tillöguna, enginn á móti.

Seinni lagabreytingatillaga stjórnar er eftirfarandi:

9.grein – Lagabreytingar

Lögum þessum er aðeins hægt að breyta á löglega boðuðum aðalfundi eða aukaaðalfundi.

Tillögur um lagabreytingar verða að hafa borist stjórn félagsins 3 vikum fyrir aðalfund. Stjórn félagsins skal kynna tillögur að lagabreytingum með bréfi til félagsmanna a.m.k. 14 dögum fyrir aðalfund.

Verður

9.grein – Lagabreytingar

Lögum þessum er aðeins hægt að breyta á löglega boðuðum aðalfundi eða aukaaðalfundi.
Tillögur um lagabreytingar verða að hafa borist stjórn félagsins viku fyrir aðalfund. Stjórn félagsins skal kynna tillögur að lagabreytingum til félagsmanna a.m.k. 3 dögum fyrir aðalfund.
Lagabreytingatillögur mega berast á aðalfundi.

Umræður um seinni lagabreytingatillögu stjórnar:

Fundarstjóri telur að seinni hluti tillögunnar sé ekki í samræmi við almenn félagslög og leggur til að þessi hluti sé kannaður nánar á öðrum vettvangi.

 • Guðmundur Ari og Jóhanna taka bæði til máls og taka undir orð fundarstjóra um gildi laganna. Þó hugmyndin og kveikjan að baki tillögunni sé góð opnar þetta glufu á miklar og róttækar breytingar á aðalfundi án þess að félagsmönnum hafi verið gert þau plön kunn.
 • Guðmundur Ari leggur til að greinin haldist að mestu leyti óbreytt en eingöngu tímamörkum verði breytt.

Formaður ber upp eftirfarandi breytingatillögu að loknum umræðum:

9.grein – Lagabreytingar

Lögum þessum er aðeins hægt að breyta á löglega boðuðum aðalfundi eða aukaaðalfundi.
Tillögur um lagabreytingar verða að hafa borist stjórn félagsins viku fyrir aðalfund. Stjórn félagsins skal kynna tillögur að lagabreytingum til félagsmanna a.m.k. 3 dögum fyrir aðalfund.

Tillagan er samþykkt með meirihluta atkvæða. Enginn greiðir atkvæði á móti.

Kosning stjórnar

Formaður býður sig fram til áframhaldandi setu og er kjörinn með öllum greiddum atkvæðum.

2 meðstjórnendur: Peta og Íris bjóða sig fram til áframhaldandi setu og eru kjörnar með öllum greiddum atkvæðum.

2 varamenn: Birna og Ása bjóða sig til áframhaldandi setu og eru kjörnar með öllum greiddum atkvæðum.

2 skoðunarmenn reikninga: Hulda Valdís býður sig fram til áframhaldandi setu og er kjörin með öllum greiddum atkvæðum. Árni Guðmundsson býður sig einnig fram og er einnig kjörinn með öllum greiddum atkvæðum.

Önnur mál

 1. Guðmundur Ari segir frá stöðu BootCamp verkefnisins og Ástralíu samstarfsverkefnis.
  1. Guðmundur Ari leggur eftirfarandi tillögu fram til samþykktar: „Í ljósi rekstrarstöðu LifeQuest ehf. og áhuga á VAXA appinu í núverandi mynd fær stjórn FFF umboð til að koma appinu og fyrirtækinu í samstarf eða annað eignarhald. Ellegar verður fyrirtækið lagt niður og gert upp.“
   1. Tillagan er samþykkt samhljóða.
  1.  Ástralíu verkefnið. Formaður spyr Guðmund Ara hvort það sé fýsilegur kostur að bjóða félögum upp á námsferð til Ástralíu í kjölfar þessa samstarfs og svarar Ari því játandi. Við erum komin með góða tengiliði til að taka á móti okkur og með styrk frá EUF er það vel raunhæfur valkostur.
 2. Hulda Valdís óskar eftir að heyra af stöðu vinnu orðanefndar. Frá árinu 2013 hefur verið starfandi íðorðanefnd á vegum Háskóla Íslands. Nýverið var sérstök áhersla lögð á leikjaorð og óskað er þessa stundina eftir ábendingum um þessi orð en hægt er að finna þessi orð inni á facebook síðu fagfélagsins. Nefnina skipa Hulda Valdís, Eygló, Jakob, Ingvar og Ása.
 3. Formaður kynnir fyrirætlanir stjórnar um fræðsluferð á næsta starfsári og ferðanefnd. Rætt hefur verið innan stjórnar að óska eftir framboðum frá félagsmönnum í ferðanefnd sem mun halda utan um skipulag námsferðar í samráði við stjórn og er það gert hér með.

Fundi er slitið kl. 19:02.