Fundur stjórnar í nóvember

Miðvikudagurinn 4. nóvember 2020
Mættir: Ágúst, Íris, Peta, Elísabet, Birna, Gísli
Fundur settur kl. 10:30

 1. Málefni Frítímans.
  Eygló Rúnarsdóttir kom inn á fundinn og ræddi um fyrirkomulag Frítímans, veftímarits fagfélagsins en hún hefur verið með þann miðil á sínum herðum síðustu ár. Upphaflega hugmyndin með miðlinum var að skipuð yrði ritnefnd sem myndi sjá um síðuna, lesa yfir og skrifa efni ásamt því að skila árlegum pistli um störf nefndarinnar. Eygló er tilbúin til að halda þessari vinnu áfram með þessari nefnd endurvakinni. Stjórn stingur upp á að FFF gæti sótt um styrk til að endurvekja miðilinn og nefndina og gefa þessum miðli meira vægi í störfum fagfélagsins.
 2. Staðan á dreifingu plakata.
  Plakötin eru komin til skila frá félaginu í öll sveitarfélög og Íris stingur upp á að skrifuð verði frétt inn á heimasíðuna okkar þess efnis til að fylgja því eftir. Ekki hefur tekist að koma plakötum til skila inn á félagsmiðstöðvar fullorðinna vegna samkomutakmarkana.
 3. Síðasta fræðsla.
  Rannveig Ernudóttir flutti erindi um Tæknilæsinámskeið í félagsmiðstöðvum fullorðinna og gekk það mjög vel. Fór fræðslan fram á Zoom og var tekin upp og upptökunni deilt á heimasíðuna í kjölfarið. Mæting var um 10 manns og voru allir ánægðir með fræðsluna og sköpuðust fróðlegar og góðar umræður að erindi Rannveigar loknu.
 4. Næsta fræðsla.
  Í næstu viku átti að vera vettvangsheimsókn sem hefur verið breytt í staðinn yfir í rafræna fræðslu þar sem flutt verða tvö erindi frá Árseli. Annars vegar kynning á verkefni frístundaheimilisins Fjóssins sem fékk nýverið hvatningaverðlaun Skóla- og frístundasviðs auk kynningar á starfi og starfsumhverfi félagsmiðstöðvarinnar Fókus sem nú rekur 2 „útibú“ ásamt sínu hefðbundna starfi.
 5. Samstarf með Samfés um Plúsinn.
  Vinna við þetta verkefni er í fullum gangi en búið er að fá útvegað húsnæði fyrir starfsemi Plússins í Ármúla. Reiknað er með eins árs tilraunaverkefni og er stjórn jákvæð fyrir aðkomu FFF að verkefninu. Stjórn þarf að ákveða með hvaða hætti félagið mun koma að starfinu, hvernig mönnun skal háttað o.fl. sem þarf að taka með í reikninginn.
 6. Önnur mál.
  • Ágúst fór á fund á Seltjarnarnesi nýverið með Jónu Rán, Victori hjá Samfés og Gísla hjá FÍÆT vegna stöðunnar sem komin er upp í æskulýðsmálum þar. Á þeim fundi var ákveðið að Fagfélagið verður með í sameiginlegri yfirlýsingu sem send verður á næstu dögum vegna þessa. 
  • Ágúst nefnir að umboð vantar fyrir stjórnina til að senda inn umsagnir í gegnum island.is. Einnig vantar að senda inn lög félagsins undirrituð af stjórn til að nafnbreytingin gangi eftir.  
  • Íris sagði frá því að samstarf er hafið við FÍÆT varðandi möguleika á sameiginlegri ferð á næsta ári.
  • Bootcamp verkefnið er í vinnslu hjá stjórn þar sem verið er að skoða hvernig er best að undirbúa og standa fyrir námskeiði út frá efni bókarinnar til að koma boltanum af stað.