Yfirlýsing stjórnar

Nú nýverið tóku í gildi hörðustu samkomutakmarkanir í sögunni með tilheyrandi raski á allri hefðbundinni starfsemi í samfélaginu.

Að gefnu tilefni viljum við í Félagi fagfólks í frístundaþjónustu (FFF) beina sviðsljósinu sérstaklega að fjölmennum hópi starfsfólks sem starfar á vettvangi frístunda. Þörfin fyrir faglegt frístundastarf hefur sjaldan eða aldrei verið meiri og hefur starfsfólk á þeim vettvangi ómælda reynslu af því að skipuleggja óformlegt starf þar sem oft á tíðum þarf að hugsa í lausnum og út fyrir kassann. FFF hvetur til aukins samráðs við fagfólk á vettvangi frístunda við ákvarðanatöku er varðar frístunda- og æskulýðsstarf barna og unglinga.

Mikilvægt er að við sem samfélag nýtum allan þann mannauð sem við höfum til að komast í gegnum heimsfaraldurinn sem nú stendur sem hæst. Í félagsmiðstöðvum og frístundaheimilum starfa fjöldinn allur af flottu og hæfileikaríku fagfólki sem hefur þessa síðustu mánuði sýnt ótrúlega hæfni til að aðlagast hratt og örugglega flóknum og erfiðum aðstæðum. Þau hafa svo sannarlega lagt sín lóð á vogarskálarnar og gera það enn þrátt fyrir miklar hömlur. Það ber okkur að þakka fyrir.

Takk fyrir ykkar störf hingað til og hér eftir. Þið eruð hetjur.