Skýrsla stjórnar FFF starfsárið 2015/2016

Starfsárið 2015/2016 var viðburðarríkt ár hjá Félagi fagfólks í frítímaþjónustu. Á aðalfundi FFF 2015 var ákveðið að setja kraft í alþjóðleg samstarfsverkefni og sækja um styrk hjá Evrópu unga fólksins sem myndi gefa félaginu kost á að ráða starfsmann og vinna markvisst að aukningu gæða í frístundastarfi á Íslandi í samstarfi við hin Norðurlöndin. Fyrir utan hádegisfundi og aðkomu FFF af ráðstefnum má segja að mesti þunginn í starfi félagsins á starfsárinu hafi verið á bakvið tjöldin við myndun tengslanets, vinnu að verkefnum og umsóknagerð um styrki sem við munum vonandi njóta góðs af með öflugum verkefnum á næstu árum.

Stjórnin fundaði mánaðarlega fyrsta miðvikudag hvers mánaðar og formaður fékk greidd verkefnastjórnunarlaun til að vinna að undirbúningi og gerð umsóknar um Strategic Partnership verkefni sem skiluð var inn í lok apríl 2016 og er reiknað með að fá svar við umsóknarbeiðninni í lok júní. FFF fékk skrifstofuaðstöðu hjá Hinu húsinu frá september og út desember og nýtti formaður FFF þá aðstöðu til að vinna að sínum verkefnum sem og að stjórn fundaði í fundarherbergjum Hins hússins. Hugmyndin var að umsókn um Strategic Partnership verkefnið myndi vera send inn í janúar og að FFF myndi vera komin með rekstrargrundvöll til að byrja greiða leigu frá og með janúar 2016 en þar sem EUF breytti umsóknarfrestunum sínum var ekki hægt að sækja um fyrr en í lok apríl um stór Strategic Partnership verkefni. Ákveðið var því að slíta leigunni í stað þess að byrja borga leigu en mikill vilji var hjá FFF og Hinu húsinu um áframhaldandi samstarf þegar að því kemur að ráða starfsmann og halda úti aðstöðu.

Tuttugu nýjir félagar voru teknir inn í samtökin á starfsárinu og er vöxtur félagsins bæði í formi nýrra félaga sem og nýrra verkefna afar ánægjulegur.

Hér eru verkefni ársins sundurliðuð og sagt frá hverju fyrir sig.

IFS Norden

IFS – International federation of Settlements eru alþjóðleg samtök hverfamiðstöðva með aðildarsamtök út um allan heim. Fritidsforum og Setlementti eru bæði aðilar í IFS og fæddist sú hugmynd á fundi FFF, Fritidsforum og Setlementti í júní 2015 að stofna IFS Norden sem myndu vera norræn samtök hverfamiðstöðva og að FFF myndi hafa sæti innan samtakana. Samtökin voru svo stofnuð haustið 2015 og var Guðmundur Ari, formaður FFF kjörinn í stjórn IFS Norden og Elísabet Pétursdóttir, gjaldkeri FFF var kosinn varamaður í stjórn. Fyrsti stjórnarfundur var haldinn í Vaasa í Finnlandi í lok nóvember. Guðmundur Ari fór á fundinn sem var haldinn samhliða aðalfundi Setlementti samtakana og flutti Guðmundur Ari erindi um frístundastarf á Íslandi á þeim fundi. Stjórn IFS Norden skipulagði aðalfund félagsins sem fram fór í apríl 2016 ásamt því að leggja drög af Strategic partnership umsókn fyrir þriggja ára verkefni sem mundi innihalda námskeið, fræðsluefni og matstæki fyrir óformlegt nám. Á aðalfundi IFS Norden sem fór fram á Íslandi 10. apríl var Guðmundur Ari og Elísabet kjörin áfram í stjórn félagsins ásamt því að markmið félagsins voru ákveðin.

Markmið IFS Norden fyrir næstu misseri er að halda námskeið fyrir starfsfólk sem starfar í frístundastarfi með öllum aldurshópum til að auka fagmennsku og gæði og er Fritidsforum að vinna að styrktarumsóknum fyrir námskeiðið. FFF leiddi svo umsóknarvinnu um þriggja ára Strategic partnership verkefni sem aðildarfélög IFS Norden eru samstarfsaðilar að.

Strategic Partnership umsókn

FFF skilaði inn umsókn um Strategic partnership verkefni 26. aprí verkefnið ber heitið Bootcamp for youth workers er þriggja ára verkefni með fjórum samstarfsaðilum. Félag fagfólks í frítímaþjónustu frá Íslandi sem er verkefnastjóri, Fritidsforum og Föreningen Norden frá Svíþjóð og Setlementti frá Finnlandi.

Um verkefnið
Verkefnið Boot camp for Nordic youth workers er afsprengi af Erasmus+ verkefninu Fagmennska til framtíðar þar sem Félag fagfólks í frítímaþjónustu fór í heimsókn til Fritidsforum vorið 2015 og hitti þar fulltrúa frá finnsku samtökunum Setlementti. Hugmyndin af verkefninu fæddist í kynningum og umræðusmiðjum samtakana þriggja. Það sem kom í ljós var það í þessum þremur löndum og jafnvel í Norðurlöndunum öllum væri verið að vinna eftir svipaðri hugmyndafræði og glíma við svipuð vandamál. Það sem allir þátttakendur voru sammála um var að mikilvægt væri að Norðurlöndin mundu vinna saman að því að sameina þekkingu sína og reynslu til að búa til afurðir til að draga fram það besta frá hverju landi og auka fagmennsku í æskulýðsstarfi á Norðurlöndunum. Þessi afurð gæti líka verið eins konar kynning á æskulýðsstarfi á Norðurlöndunum fyrir aðrar þjóðir heimsins.

Markmiðin með verkefninu eru að fá saman helstu sérfræðingana frá fagfélögum og vettvangi æskulýðsmála á Norðurlöndunum til að koma saman og deila því námsefni, þjálfunaraðferðum og matstækjum sem hvert land býr yfir. Úr þessu verður til stór suðupottur af þekkingu sem verkefnateymi hópsins mun svo nýta til að draga saman helstu áherslur og bestu verkfærin til að þjálfa æskulýðsstarfsfólk. Öll samtökin voru sérlegir áhugamenn um mat á óformlegu námi og verður hluti verkefnsins helgaður því að koma sér saman um lykilfærni og útbúa matstæki fyrir óformlegt nám sem blandar saman fræðum og rannsóknum við leikjafræði og gagnvirkni.

Það eru fjögur aðildarsamtök í verkefninu frá Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi. Öll samtökin starfa á landsvísu og í alþjóðlegu samstarfi. Samtökin eru öll uppfull af reynslu af því að framkvæma flókin fjölþjóðleg verkefni og eru sammála um að vinna að því að auka gæði æskulýðsstarfs á Norðurlöndunum. Markmið samtakana er að auka fagmennsku í æskulýðsstarfi á Norðurlöndunum og þjálfa upp öflugt starfsfólk sem vinnur með ungu fólki.

Þátttakendur í þessu verkefni eru fjölmargir en virkir þátttakendur í skipulagningu og framkvæmd á verkefninu eru 30 manns.

Afurðir verkefnisins eru fjölmargar og skiptast þær í

– Grunnnámskeið fyrir æskulýðsstarfsfólk þar sem unnið er að því að þjálfa upp þá þekkingu færni sem þarf til að starfa að valdeflingu ungs fólks

– Gagnvirkt matstæki í formi heimasíðu þar sem einstaklingar, hópar og samtök geta skráð sig til leiks til að meta og halda utan um það óformlega nám sem á sér stað í starfsemi þeirra.

– Bók sem heldur utan um hugmyndnafræðina, aðferðirnar og verkfærin sem notuð eru á námskeiðinu

– Heimasíða þar sem hægt er að nálgast allt efnið sem verður til í verkefninu og upplýsingar um það

– Fjölþjóðleg kynningarráðstefna þar sem niðurstöður verkefnisins eru kynntar fyrir Norrænum æskulýðsstarfsmönnum utan verkefnsins

– Námskeið fyrir leiðbeinendur sem vilja nýta sér námskeiðið í sínu heimalandi til að þjálfa upp æskulýðsstarfsmenn.

Áhrif verkefnsins verða að auka fagmennsku í æskulýðsstarfi á Norðurlöndunum sem og að gera heildrænan pakka úr Norrænu æskulýðsstarfi sem hægt væri að kynna fyrir heiminum öllum.
Heildarstyrktarumsókn:
€191.985 eða um 27 milljónir íslenskra króna

Fræðslunefndin

Fræðslunefndin stóð fyrir þremur hádegisfyrirlestrum í vetur og var inntak þeirra fjölbreytt og mæting góð. Á fyrsta hádegisfyrirlestrinum var Ragnheiður Elín Stefánsdóttir mannauðsráðgjafi fengin til að fjalla um orkustjórnun og hvernig við ræktum okkur sem starfsmenn og einstaklinga til að vera í góðu jafnvægi í starfi og viðhalda jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. Á öðrum fyrirlestrinum kom Einar Ómarsson verkefnastjóra spjaldtölvuvæðingar Hjallastefnunar og ræddi um hvernig hægt er að nota spjaldtölvur í frístundastarfi og námi. Á þriðja hádegisfyrirlestrinum kom Dagbjört Ásbjörnsdóttir framkvæmdastjóri Kamps og var með fræðslu um hagnýt atriði sem gott er að þekkja þegar við tökum á móti flóttafólki í frístundastarf.

FFF í samstarfi við önnur samtök stóðu fyrir fjórum stórum og mjög vel heppnuðum viðburðum á starfsárinu.

  • Ráðstefnan Frítíminn er okkar fag fór fram 16. október í Laugardalshöllinni en ráðstefnan var samstarfsverkefni FÍÆT, FFF, Samfés og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Inntak ráðstefnunar var stefnumótun í æskulýðsmálum.
  • Ráðstefnan íslenskar æskulýðsrannsóknir var haldin 20. nóvember en ráðstefnan er samstarfsverkefni námsbrautar í tómstunda- og félagsmálafræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, Rannsóknarstofu í bernsku- og æskulýðsfræðum, Rannsóknarstofu í tómstundafræði, Rannsóknum og greiningu við Háskólann í Reykjavík, Félags fagfólks í frítímaþjónustu.
  • Ráðstefnan skipta raddir ungs fólks máli fór fram 19. febrúar á Nordica Hotel Hilton. Ráðstefnan var hugsuð fyrir fulltrúa ungmennaráðs og þá sem standa að málefnum ungmennaráða hjá sveitarfélögum og félagasamtökum. Ráðstefnan var samstarfsverkefni Evrópu unga fólksins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Umboðsmanns barna, FFF og Samfés.
  • Tómstundadagurinn 2016 var haldinn undir yfirskriftinni Tómstundir og tækni – tækifæri og áskoranir var haldinn hátíðlegur með ráðstefnu 19. febrúar á Menntavísindasviði. Að skipulagi dagsins komu fulltrúar frá Samfés, FFF, Háskólanum og FÍÆT.

FFF stóð einnig fyrir örráðstefnunni Saga og staða hverfamiðstöðva á Norðurlöndunum í tengslum við aðalfund IFS Norden þar sem fulltrúar frá Svíþjóð, Finnlandi, Íslandi og Álandseyjum fjölluðu um stöðu og hverfamiðstöðva og frístundastarfs í þeirra heimalandi. Ráðstefnan fór fram 11. apríl í húsnæði Menntavísindasviðs.

Orðanefndin

Fulltrúi úr FFF hefur átt sæti í orðanefnd í tómstundafræðum frá stofnun nefndarinnar sumarið 2013 en auk fulltrúa FFF eiga þar sæti aðilar frá námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands og Æskulýðsráði. Orðanefndin vinnur náið með Ágústu Þorbergsdóttur hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Árið 2015 fékk orðanefndin styrk frá bæði Æskulýðsráði og Málræktarsjóð sem gerði nefndinni kleift að ráða nema í sumarstarf sumar 2015 til að færa lykilhugtök inn í rafrænt orðasafn Íslenskrar málstöðvar og tókst í þessar fyrstu atrennu að safna um 400 íðorðum (fagorð fræðigreinarinnar) sem skráð voru inn í Orðabanka íslenskrar málstöðvar. Orðanefndin fékk aftur styrk frá Málræktarsjóði vorið 2016 og mun nýta það fjármagn til að láta yfirfara og fínpússa þau hugtök sem þegar eru komin inn í orðabankann í þeim tilgangi að hægt sé að opna bankann með formlegum hætti í árslok 2016.

Tómstundahandbók

Um er að ræða samstarfsverkefni FFF, FÍÆT (Félag íþrótta-, æskulýðs og tómstundafulltrúa) og námsbrautar í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands en hugmyndavinna hófst 2011. Síðan þá hefur verið unnið að undirbúningi sem hefur aðallega snúið að fjármögnun og mótun verkefnisins. Styrkur hefur fengist frá Æskulýðsráði, FFF, FÍÆT og Sambandi íslenskra sveitarfélaga og hefur það gert verkefnisstjórn (nú ritstjórn) kleift að taka næstu skref í þessari vinnu en þau felast í ritun efnis og netútgáfu. Efnisyfirlit liggur fyrir ásamt verklýsingu og verksamningum við höfunda. Tímaætlun gerir ráð fyrir að lokaskil höfunda á efni verði í október 2016 og að útgáfa á ritinu verði í janúar 2017. Í framhaldi af netútgáfu liggja fyrir hugmyndir um prentútgáfu en það verður að koma í ljós hvort og þá hvenær sú hugmynd nær að verða að veruleika.

Samantekt

Árið var afar viðburðarríkt hjá FFF, verkefnin fjölbreytt og félagahópurinn hélt áfram að stækka. Framundan eru spennandi tímar þar sem gerð tómstundahandbókar, vinna orðanefndar sem og fræðsluferðir eru á dagskrá. Spennandi verður að sjá hvað kemur út úr styrkjaumsókninni um Strategic Partnership verkefnið en ef sá styrkur næst í gegn mun rekstrarumhverfi og bolmagn samtaka gjörbreytast. Það hefur verið ótrúlega ánægjulegt og gefandi að starfa fyrir Félag fagfólks í frítímaþjónustu. Samtökin eru öflug, mikið er leitað til þeirra og fagfólk á vettvangi er tilbúið að vinna þétt með samtökunum sem er ómetanlegt þar sem 99% af starfi samtakana er unnið í sjálfboðastarfi einstaklinga sem brenna fyrir því að auka fagmennsku á vettvangi frístundamála á Íslandi.

Stjórn FFF 2015/2016

Guðmundur Ari Sigurjónson
Elísabet Pétursdóttir
Bjarki Sigurjónsson
Heiðrún Janusardóttir
Katrín Vignisdóttir

Hulda Valdís Valdimarsdóttir
Guðrún Björk Freysteinsdóttir