Ánægja með umfjöllun um tæki og tækni á hádegisverðarfundi FFF

fff_hadegisverdarfundur_090914Fyrsti hádegisverðarfundur Félags fagfólks í frítímaþjónustu árið 2015 var haldinn 11. mars sl. á Kaffi Sólon. Yfirskrift fundarins að þessu sinni var Tæki og tækni – Blessun eða böl í frístundastarfi? Á fundinum fjölluðu þær Tinna Breiðfjörð Guðjónsdóttir, forstöðumaður í frístundaklúbbnum Hofinu, og Þórunn Vignisdóttir, forstöðukona í félagsmiðstöðinni Laugó í Reykjavík, um notkun og áhrif tölva, snjalltækja, netsins og netmiðla í frístundastarfi.

Í erindi sínu lagi Tinna út frá hugtakinu rafræn lífsleikni og fléttaði ýmis hugtök inn í umfjöllun sína um rafrænt námsnet barna og unglina og mikilvægi þess að líta á samfélag barna heildrænt sem námssamfélag eða það sem á dönsku kallast det kompetente bornefællesskap. Í erindi sínu fjallaði hún jafnframt um mikilvægi þess að börn og unglingar fái stuðning í að efla rafræna færni, fjölmiðlalæsi og tæknilæsi, og um miðla dagsins í dag sem félagsmótunartæki sem eiga stóran þátt í daglegu lífi þeirra.

Þórunn lagði í sínu erindi út frá áralangri reynslu af barna- og unglingastarfi í félagsmiðstöðvum en hún hefur nýtt tæki og netmiðla í sínu starfi með góðum árangri. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að börn og unglingar fái að vinna með miðla og kynnast fyrr því umhverfi sem bíður þeirra, eða þau jafnvel eru farin að nota með eða án samþykkis foreldra, svo þau geti tekið þátt og nýtt miðla með uppbyggilegum hætti á ábyrgan hátt.

Um 20 manns mættu til fundarins að þessu sinni og gæddu sér á súpu yfir erindinu. Ánægja var með viðfangsefnið og erindi þeirra Tinnu og Þórunnar og samdóma álit fundargesta að fleiri hefðu þurft að mæta til fundarins enda viðfangsefnið eitt af því helsta sem brennur á fagfólki á vettvangi frítímans, og víðar reyndar, í starfi með börnum og unglinga. Í umræðum á eftir var komið inn á tölvuleiki og aldurstakmörk og umræður spunnust um viðmið og reglur í félagsmiðstöðvum því samhliða. Þar voru fundargestir sammála um að tölvuleikir og notkun þeirra væri efni í sérstakan hádegisverðarfund og spurning hvort ekki verði af því fljótlega.

Þórunn og Tinna veittu leyfir fyrir því að glærur þeirra yrðu aðgengilegar á vef fagfélagsins og þakkar fræðslunefndin þeim kærlega fyrir erindið sem og aðgang að efninu.

Eygló Rúnarsdóttir, fræðslunefnd FFF

Hér má nálgast glærurnar hennar Tinnu Breiðfjörð

Kynning Þórunnar Vignis