Fjölmenni á fyrsta hádegisverðarfundi vetrarins

fff_hadegisverdarfundur_090914Fyrsti hádegisverðarfundur FFF fór fram á Sólon þriðjudaginn 9. september sl. og var fundurinn sá fjölmennasti í langan tíma en yfir 50 manns sátu fundinn að þessu sinni. Gestur fundarins var Hrefna Guðmundsdóttir, MA í vinnusálfræði og jákvæðri sálfræði, og fjallaði hún um jákvæða sálfræði í frístundastarfi.

Í máli sínu fór Hrefna yfir helstu þætti sem jákvæð sálfræði beinir sjónum að sem og rannsóknum á hamingjunni. Hún fjallaði m.a. um rannsóknir um fylgni ýmissa þátta við hamingju en það hefur m.a. komið í ljós að engin fylgni er milli hamingju og aldurs, kyns, menntunar eða gáfnafars en nokkur fylgni er milli hamingju og félagslífs og líkamlegrar heilsu og mikil fylgni við jákvæðni, þakklæti og að vera oft hrósað. Það kom einnig fram í máli Hrefnu að í Evrópu eru norðlægar þjóðir yfirleitt hamingjusamari en suðlægar þjóðir. Hrefna sagði einnig frá þeim verkefnum sem hún hefur unnið að í frístundastarfi þar sem nálgun jákvæðrar sálfræði var meginútgangspunktur. Hrefna veitti góðfúslega leyfi fyrir því að glærur hennar færu á vef félagsins og þær má nálgast hér.

fff_hrefna_090914

Fundargestir tóku þátt í fjölbreyttum æfingum og umræður í kjölfarið voru góðar. Í lok fundar spjölluðu fundargestir um erindið og annað þarft yfir súpuskál. Það er ljóst að félagsfólk og aðrir gestir fundarins fara inn í komandi vetur með gott fóður til að þróa og nýta með fólki á öllum aldri í frístundastarfi sem og fyrir eigin þroska í starfi.

Hér má nálgast glærurnar frá fundinum.