VIÐURKENNING FYRIR BESTA B.A. VERKEFNIÐ Í TÓMSTUNDA- OG FÉLAGSMÁLAFRÆÐI

Hrafnhildur Stella Sigurðardóttir hlaut viðurkenningu fyrir bestu B.A. ritgerð í tómstunda- og félagsmálafræðum árið 2010. Verkefni Hrafnhildar ber nafnið „Tómstundir og stóriðja“. Verðlaun þessi eru veitt í fyrsta sinn. Verðlaunin veita Félag æskulýðs- íþrótta- og tómstundafulltrúa FÍÆT og Félag fagfólks í frítímaþjónustu FFF. Formaður dómnefndar var Eygló Rúnarsdóttir fyrir hönd FFF. Aðrir í dómnefnd voru Gísli Árni Eggertsson tilnefndur af FÍÆT og Árni Guðmundsson af hálfu Tómstunda- og félagsmálfræðibrautar menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Umsögn dómnefndar: Tómstundir og stóriðja Lokaverkefni Hrafnhildar Stellu Sigurðardóttur, lagt fram til fullnaðar B.A.–gráðu í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands, Menntavísindasvið. Rannsóknarspurningin sem höfundur leggur upp með er: „Á hvern hátt hefur stóriðja áhrif á skipulagðar tómstundir íbúa í litlu sveitarfélagi á landsbyggðinni?“ Í ágripi í upphafi ritgerðarinnar gerir höfundur grein fyrir verkefninu en þar segir: „Í ritgerð þessari er fjallað um rannsókn sem höfundur hennar gerði á skipulögðu tómstundastarfi á Húsavík og Reyðarfirði. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvort fólksfækkunin á Húsavík og breytingarnar í atvinnulífinu og á atvinnutækifærum hafi haft áhrif á skipulagt tómstundastarf í bænum. Ætlunin var að kanna hvaða væntingar formenn félaga í skipulögðu tómstundastarfi á Húsavík hafa til þess að fá stórt iðnfyrirtæki í bæinn. Hvort uppbyggingin á Reyðarfirði og starfsemi Alcoa Fjarðaáls sf. hafi haft áhrif á skipulagt tómstundastarf bæjarbúa og hvort gera megi ráð fyrir svipuðum áhrifum á Húsavík ef af uppbyggingu verður þar. Rannsóknin byggir á viðtölum við formenn tíu sambærilegra tómstundafélaga sem til staðar voru í báðum bæjarfélögunum, æskulýðsfulltrúa sveitarfélaganna og umsjónarmenn félagsmiðstöðva fyrir grunnskólanemendur.“ Höfundur gerir þessu viðfangsefni sínu afar góð skil, tekst vel að halda hlutleysi sínu en jafnframt að tengja efnið fræðilegri umræðu sem lýtur að mikilvægi skipulegra tómstunda. Hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á stóriðju þá birtir rannsóknin skýra mynd af áhrifum aðstæðna í báðum sveitarfélögunum og væntingum íbúanna. Félagsauði á báðum stöðum eru gerð góð skil. Forsvarsmenn skipulegs félagsstarf eru talsmenn og málsvarar sinna félaga en horfa jafnframt til heildarhagsmuna sveitarfélagsins sem þeir búa í. Verkefnið er í heild sinni afar vel unnið og mikilvægt framlag til fræðilegrar og faglegrar umræðu um frístundir á Íslandi.