ÞÉTTBÝLISLIST TIL UMFJÖLLUNAR Á HÁDEGISVERÐARFUNDI

Á hádegisverðarfundi Félags fagfólks í frítímaþjónustu föstudaginn 26. febrúar sl. fjallaði Marlon Lee Úlfur Pollock um þéttbýlislist sem jafnframt hefur gengið undir nafninu urban culture eða jaðarmenning manna á milli á Íslandi. Marlon kynnti fyrir fundargestum helstu strauma og stefnur, ólíka miðla s.s. rapp og break, en meginumfjöllunarefnið var graffiti eða veggjalist. Hann leiddi fundargesti í gegnum mismunandi gerðir verka og eins viðhorf unglinga til þessa forms sem og þá árekstra sem orðið hafa milli borgaryfirvalda annars vegar og hópa sem hafa notað þessa leið í sinni menningarsköpun. Fundargestir voru ánægðir með innsýn í heim þéttbýlismenningar og góðar umræður voru í lok fundarins.