TÍMINN EFTIR SKÓLANN SKIPTIR LÍKA MÁLI

Á ráðstefnu um íslenskar æskulýðsrannsóknir 5. nóvember síðastliðinn flutti Amalía Björnsdóttir, dósent í aðferðafræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, áhugavert erindi um tómstundir og frítíma nemenda í 1., 3., 6. og 9. bekk grunnskóla. Í Netlu – veftímariti um uppeldi og menntun – er að finna ritrýnda grein eftir Amalíu, Baldur Kristjánsson og Börk Hansen um rannsókn sem þau gerðu skólaárið 2007–2008.

Meirihluti barnanna sem svaraði spurningalista tók þátt í skipulögðum tómstundum og mikill meirihluti foreldra taldi mikilvægt að börn þeirra tækju þátt í slíku starfi. Ekki var munur á íþróttaiðkun eftir kyni en stúlkur voru líklegri til að vera í listnámi. Í frístundum sínum horfðu drengir meira á sjónvarp en stúlkur í öllum bekkjum nema 3. bekk. Tengsl fundust milli sjónvarpsáhorfs og menntunar; lengri menntun foreldra tengdist minna áhorfi hjá börnum og því að þau voru síður með sjónvarp í eigin herbergi. Í 1. og 3. bekk voru drengir líklegri en stúlkur til að vera með sjónvarp í eigin herbergi, t.d. voru 40% drengja í 1. bekk með sjónvarp í eigin herbergi en 17% stúlkna. Tölvunotkun var talsverð og var hún meiri hjá piltum en stúlkum. Tölvueign var ekki tengd menntun foreldra en hún jókst talsvert eftir því sem leið á skólagönguna. Stórnotendur tölvu voru flestir meðal drengja í 9. bekk þar sem 11% notuðu tölvu sjö klukkustundir á dag eða lengur. Talsvert algengt var að nemendur ynnu með námi í 9. bekk eða 26% nemenda.

Tíminn eftir skólann skiptir líka máli – ritrýnd grein í Netlu birt 15. desember 2009.