FRÉTTATILKYNNING FRÁ FFF

Tímamót hjá Félagi fagfólks í frítímaþjónustu
 Aðalfundir félagasamtaka þykja alla jafna ekki jafnáhugavert umfjöllunarefni fjölmiðla og aðalfundir fjárfestingarfélaga eða stórfyrirtækja. Félag fagfólks í frítímaþjónustu hefur þó mikinn metnað og er stolt af störfum sínum þrátt fyrir ungan aldur. Á aðalfundi félagsins sem haldinn var í Reykjavík á fjögurra ára afmælisdegi þess þann 28. maí síðast liðinn fagnaði félagið tvenns konar tímamótum.

Í fyrsta skipti í sögu félagsins er meirihluti stjórnar félagsins skipaður tómstunda- og félagsmálafræðingum sem lokið hafa háskólamenntun sinni á Íslandi. Formleg háskólamenntun í tómstundafræðum er tiltölulega ný af nálinni hér á Íslandi en löng hefð er fyrir slíku námi í Skandinavíu og margir Íslendingar hafa numið sín fræði erlendis. Stjórn félagsins skipa Eygló Rúnarsdóttir, formaður, Helga Margrét Guðmundsdóttir, varaformaður, Andri Ómarsson, gjaldkeri, Jóhannes Guðlaugsson, ritari og Einar Rafn Þórhallsson, meðstjórnandi. Heiðrún Janusardóttir og Þröstur Sigurðsson eru í varastjórn félagsins.

Á aðalfundinum voru jafnframt samþykktar siðareglur félagsins. Við stofnun félagsins var lögð áhersla á að setja siðareglur fyrir félagsmenn og því voru lögð fram drög á stofnfundi þess sem félagsmenn hafa gert að sínum fram til þessa. Einstaka sveitarfélög hafa jafnframt haft þau drög að leiðarljósi í félags- og tómstundastarfi á sínum vegum.

Kröfur samfélagsins til innihalds og aðbúnaðar í frítímastarfi auk fagmennsku þeirra sem starfa á vettvangi frítímans eru sífellt að aukast.  Félag fagfólks í frítímaþjónustu var stofnað 28.maí 2005 og er því ungt félag. Helstu markmið félagsins eru m.a. að leggja áherslu á mikilvægi sérþekkingar fagfólks í frítímaþjónustu og efla fagvitund og samheldni með því að skapa félögum vettvang til umræðna og skoðanaskipta. Á aðalfundinum lýstu félagsmenn yfir áhyggjum af stöðu barna og unglinga á þessum umbrotatímum í íslensku samfélagi. Einkum lýstu félagsmenn yfir áhyggjum af stöðu félags- og tómstundastarfs á komandi árum en þátttaka í slíku starfi hefur mikið forvarnargildi að mati fjölda íslenskra og erlendra rannsókna.

Allar upplýsingar um félagið ásamt siðareglum félagsins er að finna á heimasíðu þess, www.fagfelag.is