VERNDUM ÞAU

Í síðustu viku sóttu 80 starfsmenn Gufunesbæjar í Reykjavík tvö námskeið Verndum þau á vegum FFF. Námskeiðin eru haldin af fagfélaginu í samstarfi við höfunda bókarinnar Verndum þau, Ólöfu Ástu Farestveit og Þorbjörgu Sveinsdóttur, með stuðningi frá Menntamálaráðuneytinu og eru ætluð öllum þeim sem vinna með börnum og unglingum.

Ráðuneytið, FFF og höfundar bókarinnar gerðu með sér samning haustið 2006 um að standa fyrir 24 námskeiðum veturinn 2006-2007. Námskeiðin tvö í síðustu viku eru þau síðustu í þessari lotu og hafa nú rúmlega 700 manns sótt námskeiðin víða um land.

Fagfélagið, Menntamálaráðuneytið og höfundar hafa lýst yfir vilja til frekara samstarfs og munu skoða nýjan samning á allra næstu dögum. Stjórn fagfélagsins lýsir yfir ánægju með þá ákvörðun. Samstarfið við Ólöfu Ástu og Þorbjörgu hefur verið einkar gefandi og gott og þær hafa fengið góða umsögn þeirra sem námskeiðin sækja. Fagfélagið þakkar jafnframt ráðuneytinu fyrir áhugann og gott samstarf.