Föstudaginn 6. desember fór fram viðurkenningarathöfn fyrir framúrskarandi lokaverkefni í tómstunda- og félagsmálafræði. Athöfnin var samstarfsverkefni Félags fagfólks í frístundaþjónustu (FFF), Félags íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa (FÍÆT) og tómstunda- og félagsmálafræðibrautar Háskóla Íslands. Í þessu samstarfi fá FÍÆT og FFF lokaverkefni frá tómstunda- og félagsmálafræðibrautinni til mats.
Dómnefnd, skipuð Ágústi Arnari Þráinssyni, Ásu Kristínu Einarsdóttur og Magnúsi Inga Bæringssyni, velur það verkefni sem þykir skara fram úr hvað varðar gildi fyrir starfsvettvanginn.
Tilnefnd verkefni 2024:
Birkir Atli Einarsson – Höfuðskepnurnar fjórar: sumarnámskeið.
Margrét Ósk Borgþórsdóttir – Tómstundaþátttaka eldri borgara í dreifbýli: Stuðningur sveitarfélaga við farsæla öldrun. Jóhanna Gréta Hafsteinsdóttir – „Ef þessar kellingar geta gert þetta þá hljótum við að geta gert þetta“: Upplifun karla sem prjóna á Íslandi.
Alex Elí Schweitz Jakobsson – „Við viljum fá betri nágranna út úr fangelsunum“: Hvaða áhrif hefur virk tómstundaiðkun á betrun fanga og endurkomutíðni þeirra?
Hallgerður Freyja Þorvaldsdóttir og Harpa Karen Antonsdóttir – Stundirnar í tóminu: Gildi tómstunda fyrir einstaklinga sem greinast með krabbamein. Sandra Karlsdóttir – Í leit að öryggi: Fræðslumiðaður flóttaleikur fyrir ungt fólk. Valið verkefni ársins: Að þessu sinni hlaut verkefni
Söndru Karlsdóttur, „Í leit að öryggi: Fræðslumiðaður flóttaleikur fyrir ungt fólk“, viðurkenningu dómnefndar.
Dómnefndin lagði sérstaka áherslu á eftirfarandi í umsögn sinni: Samfélagslegt gildi: Verkefnið byggir á mikilvægi þess að vinna að aukinni samkennd og félagslegri þátttöku í fjölbreyttu samfélagi. Sérstök áhersla er lögð á að minnka jaðarsetningu, fordóma og félagslega einangrun fólks með flóttabakgrunn. Framsetning og uppbygging: Verkefnið er sett upp á skemmtilegan og aðgengilegan hátt með ítarlegri handbók sem auðvelt er að tileinka sér. Tímarétt samhengi: Verkefnið fjallar um viðfangsefni sem er mjög áberandi í samtímanum og krefst athygli og aðgerða af hálfu samfélagsins. Notagildi fyrir starfsvettvanginn: Efnið er vel útfært og auðvelt fyrir starfsfólk á vettvangi að innleiða í starfsemi sína.
Viðurkennd meistaraverkefni:
Hafdís Oddgeirsdóttir – „Á endanum snýst þetta allt um börnin“: Hvað einkennir fyrirmyndarsamstarf frístundaheimila og grunnskóla? Hvað styður og hvað hindrar?
Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir – Er skátastarf opið öllum? Sýn skátaforingja á inngildingu jaðarsettra hópa í skátastarfi.
Viktor Orri Þorsteinsson – Lærdómssamfélag á vettvangi frístundastarfs: Birtingarmyndir og áskoranir að mati reyndra forstöðumanna.
Andrea Marel Þorsteinsdóttir – „Vettvangsstarf er lífsnauðsynlegur hlekkur í stuðningskerfi varðandi börn“: Sýn fagfólks á vettvangsstarf félagsmiðstöðva í Reykjavík.
Athöfnin undirstrikaði mikilvægi þess að mennta sérfræðinga í tómstunda- og félagsmálafræði, sem stuðla að framþróun á fjölbreyttum sviðum samfélagsins. Með verkefnum sínum sýna nemendur hvernig fræðin geta haft raunveruleg áhrif og stuðlað að betri framtíð fyrir alla. Með þessum hætti heldur tómstunda- og félagsmálafræðibrautin áfram að efla fagmennsku og auka gildi greinarinnar á fleiri sviðum samfélagsins.