Félag fagfólks í frítímaþjónustu skellti sér í námsferð til Stokkhólms dagana 25.-28. mars. Verkefnið var unnið í samstarfi við Fritidsforum en það eru sænsk samtök sem eru einskonar samblanda af FFF og Samfés. Fritidsforum vinnur þó þvert á allan aldur og meðlimir samtakana eru samtök og stofnanir en ekki einstaklingar.
Í ferðina héldu 22 meðlimir FFF út en verkefnið var styrkt af Evrópu unga fólksins. Dagskrá verkefnisins var fjölbreytt en skiptist þó helst í tvö meginþemu, annars vegar samstarfi við Fritidsforum, að kynnast starfsemi, verkefnum og koma á frekara samstarfi milli samtakana tveggja. Hins vegar var farið í mikið af vettvangsheimsóknum þar sem hver og einn gat valið sér starfsstöð eftir eigin áhugasviði til að skoða.
Ferðin gekk með eindæmum vel og má segja að bæði samtökin hefðu fengið enn meira útúr heimsókninni en þau þorðu að vona. Þátttakendur ferðarinnar voru einnig ákaflega sáttir og fannst ferðin auka þekkingu þeirra á því sem hægt er að gera, hvað þau eru að gera vel ásamt því að blása þátttakendum eldmóð í brjósti við að gera vel og hrinda nýjum verkefnum í framkvæmd.
Eitt er þó alveg ljóst að FFF bíður stórt og mikið verkefni en það er að vinna út úr þessari heimsókn og semja ný markmið og stefnu fyrir Fagfélagið. Það sýndi sig mjög í þessari ferð að FFF er ákaflega sterkur vettvangur þar sem saman koma einstaklingar á eigin forsendum til að vinna að eigin áhugamálum og ástríðu. Í því býr mikill kraftur sem hægt er að virkja enn betur til að auka fagmennsku á vettvangi frítímans á Íslandi. Annað sem eftir situr eftir ferðina er hversu mikilvægt alþjóðasamstarf er fyrir samtök eins og FFF en í samstarfi við Fritidsforum eru þegar komnar af stað hugmyndir af verkefnum og viðburðum sem hægt væri að hrinda af stað í nánustu framtíð.