Hvernig sinnum við sem vinnum á vettvangi frítímans starfi okkar af fagmennsku? Hvað þýðir það að sinna starfi sínu af fagmennsku? Í hverju felast fagleg vinnubrögð? Hvernig er hægt að meta og segja til um það hvað telst vera fagmennska og hvað ekki? Í Íslenskri orðabók (2002) er orðið fagmaður skilgreint á þann veg að fagmaður sé sérfræðingur, maður sem sérlærður er til ákveðins verks. En dugar það að læra ákveðið verk eitt og sér til að hægt sé að kallast fagmaður? Já eflaust má svara því játandi upp að vissu marki en það þarf þó meira til. Það þarf að tileinka sér ákveðin gildi í starfinu, gildi sem eru viðurkennd og hægt er að koma sér saman um að skipti máli fyrir fagið og talin eru nauðsynleg til að hægt sé að segja að starfi sé sinnt af fagmennsku.
Í áhugaverðri grein á Vísindavefnum (Henry Alexander Henrysson, 2012) er hugtakið fagmennska talið siðferðilegt hugtak „sem krefst þess að verk séu unnin heiðarlega og fyrir opnun tjöldum“. Fagleg vinnubrögð eru þannig talin kalla á ákveðið gagnsæi og einnig eru traust og ábyrgð talin einkennandi fyrir fagmennsku. Einn liður í því að styrkja fagleg vinnubrögð getur þannig verið að starfsstéttir setji sér siðareglur. Það má kannski segja að einn liður í því að vera fagmaður sé að starfa eftir og tileinka sér gildandi siðareglur i því fagi sem viðkomandi starfar í og þannig sé hægt að tryggja fagmennsku upp að einhverju ákveðnu marki.
Félag fagfólks í frítímaþjónustu (FFF) samþykkti sínar siðareglur á aðalfundi félagsins í maí 2008. Þar kemur m.a. fram að grundvöllur starfs fagfólks í frítímaþjónustu sé virðing fyrir manngildi og sérstöðu hvers einstaklings og trú á getu hans til að nýta hæfileika sína til fulls. Lögð er á áhersla á heiðarleika og virðingu fyrir skoðunum, lífi og réttindum einstaklinga auk þess sem vinna skal að því að skapa traust almennings á faglegri frítímaþjónustu og ekki megi gera neitt sem rýri orðstír fagsins eða hópsins. Siðareglurnar má lesa í heild sinni hér. Samhliða siðareglum verður að vera skýrt hvað gerist ef þær eru brotnar og hvað ferli fer þá af stað. Einnig er mikilvægt að umræða um gildandi siðareglur sé tekin upp reglulega og reglurnar uppfærðar og þeim breytt eftir aðstæðum, lögum og reglum hverju sinni. Stjórn
FFF hefur nýlega ákveðið að nú sé tímabært að fara í umræður og endurskoðun á siðareglum félagsins og mun kalla eftir virkri þátttöku félagsmanna í þeirri vinnu.
Það er mikilvægt að átta sig á því að þegar fjallað er um fagmennsku og hvað felst í henni að ekkert einfalt svar er til. Fagmennska er margslungið fyrirbæri sem erfitt er að festa hendi á en að sama skapi eigum við oft auðvelt með að svara því hvað telst ekki vera fagmennska. Það að mennta sig í frítímafræðum, vinna eftir þeim siðareglum sem gilda um vettvanginn og taka virkan þátt í umræðum um þróun hans er að minnsta kosti góð byrjun á þeirri vegferð að geta kallað sig fagmann á vettvangi frítímans.
Heimildir:
Henry Alexander Henrysson. (2012, nóvember). Hvað eru fagleg vinnubrögð? Vísindavefurinn. Sótt 23. september 2013 af http://visindavefur.is/?id=62547
Mörður Árnason (Ritstj.). (2002). Íslensk orðabók, 3. útgáfa. Reykjavík: Edda útgáfa hf.