Fundur stjórnar 7. september í Buskanum
Mættir: Gísli Felix Ragnarsson, Gissur Ari Kristinsson, Jóna Rán Pétursdóttir, Bjarki Sigurjónsson og Guðmundur Ari Sigurjónsson
Fundur settur 13:15
- Dagskrá:
Dagsetningar ákveðnar fyrir viðburði vetrarins, tekið tillit til viðburða Samfés og Menntavísindasviðs HÍ. Fundargestir sammála um að þriðjudagshádegi séu heppileg fyrir fræðslur, undantekning gerð fyrir fyrirlesara frá Hólmavík. Bjarki kannar góða tímasetningu yfir daginn fyrir fagfólk í frítímaþjónustu fyrir eldri borgara. - Starfsdagar Samfés:
Stjórn er með kynningu á starfsdögum, Jóna Rán, Gísli Felix, Gissur Ari og Bjarki verða á staðnum, auk Írisar Óskar og Guðmunds Ara. Fundargestir ræða möguleika á að gefa út varning fyrir félagsmenn. Kaffibollar þykja tilvaldir en fundargestir velta fyrir sér hvort fyrirvarinn sé of stuttur. Stjórn mun allavega taka með sér plaggöt fyrir félagsmenn með dagskrá vetrarins. Fundargestir taka saman aðalatriði kynningarinnar; kynning á hlutverki og starfsemi félagsins, aðeins um uppruna félagsins, kynning á dagskrá vetrarins fyrir þá sem eru mjög kunnugir félaginu, upplýsingar um hvernig maður skráir sig og bent á hugmyndakassa. - Fyrirspurn um viðbrögð félagsins við nýjum persónuverndarlögum:
Fundargestir velta fyrir sér hvort að viðfangsefnið sé viðeigandi fyrir hádegisfræðslu. Upp kemur hugmynd um að útbúa stutt myndskeið með innskotum frá helstu sérfræðingum á þessu sviði. Þá er átt við stjórnendur hjá sveitarfélögunum og lögfræðinga. Myndskeiðið gæti verið til upplýsinga fyrst og fremst og kannski myndað umræðu út frá því hvaða lausnir standa frítímaþjónustu til boða. - Náum áttum hópurinn:
Hugmynd frá starfsdegi stjórnar um að kynnast betur Náum áttum hópnum er tekin upp. Félagið er aðili að hópnum og þarf stjórn að komast í samband við hópinn varðandi fundarsetu. Gísli Felix fylgir málinu eftir. - Önnur mál:
Guðmundur Ari fjallar um Bootcamp verkefnið. Fram kemur að huga þurfi betur að fjármögnun lokakafla verkefnisins. Guðmundur kynnir möguleikana á frekari fjármögnun og er aðkoma fagfélagsins ein tillagan. Fundargestir spyrja um stöðu verkefnisins og er ákveðið að Guðmundur Ari þrói tillögu að fjárfestingu fagfélagsins í verkefninu lengra og málið verði tekið upp að nýju á næsta fundi.Fundi slitið 14:30