Fræðslunefnd Félags fagfólks í frítímaþjónustu stóð fyrir hádegisverðarfundi þriðjudaginn 6. maí sl. á Kaffi Sólon. Viðfangsefni fundarins var að þessu sinni siðareglur og siðferðileg álitamál í frítímastarfi.
Kolbrún Þ. Pálsdóttir, lektor við námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands, var gestur fundarins að þessu sinni. Hún fjallaði í erindi sínu almennt um siðareglur fagstétta og byggði umfjöllun sína á siðareglum félagsins (https://fagfelag.is/sidareglur/ ) sem samþykktar voru árið 2009. Hún benti meðal annars á siðareglur væru fyrst og fremst opinber sáttmáli um hugsjónir og gildi starfsins en ekki endilega tæknilegt stuðningsrit . Siðferðileg álitamál eru alltaf aðstæðubundin, en umræða um siðareglur hjálpar fagfólki að átta sig á því hvar frumskyldur sínar liggja og geta stutt við erfiðar ákvarðanir. Kolbrún fjallaði einnig um muninn á siðferðilegum vanda og siðferðilegum álitamálum og hvatti stjórnendur í frístundastarfi til umræðu um frumskyldur starfsins til að efla meðvitund um siðareglur og úrvinnslu þegar siðferðileg álitamál og vandi liggja til grundvallar. Að endingu benti hún á samspil almenns siðferðis, lagaumhverfis og siðareglna sem eru þar á milli og benti á heimasíðu þar sem siðferði og frístundastarf er til umfjöllunar (http://www.youthworkethics.blogspot.com/)
Við lok erindisins urðu góðar umræður meðal fundargesta sem að þessu sinni voru 25 talsins. Fræðslunefnd félagsins bendir félagsmönnum á að senda félaginu ábendingar um áhugaverð málefni til umfjöllunar á hádegisverðarfundum eða öðrum vettvangi.