Aðalfundur félags fagfólk í frítímaþjónustu 7. júní 2006

Aðalfundur félags fagfólk í frítímaþjónustu, miðvikudaginn 7.júní 2006 að Borgartúni 28.

Mættir: Hafsteinn Snæland, Gísli Árni, Árni Guðmundss, Óli litli, Kristinn, Nilla, Héðinn, Margrét, Steingerður, Eygló, Sóley, Soffía, Árni Jónsson,

Fundarstjóri: Sóley Tómasdóttir

Ritari: Nilla L. Einarsdóttir

Dagskrá fundarins:

  •       Skýrsla stjórnar
  •       Reikningar félagsins
  •       Starfsáætlun og fjárhagsáætlun næsta árs
  •       Árgjald
  •       Lagabreytingar og skipulag
  •       Kosning stjórnar og varamanna
  •       Kosning skoðunarmanna reikninga
  •       Önnur mál
  •       Opnun heimasíðu félags fagfólks í frítímaþjónustu

Skýrsla stjórnar:

Steingerður las upp skýrslu stjórnar.

“Ágætu félagar.

Það er mér bæði ljúft og skylt sem formanni að flytja ykkur skýrslu stjórnar.

Okkar nýstofnaða félag fagfólks í frítímaþjónustu á að baki sitt fyrsta starfsár sem hefur verið að mati stjórnar afar lærdómsríkt og annasamt.

Enn er félagið fremur lítið að vexti og eru í dag 35 félagsmenn.

Frá 8. október 2005, eða þegar síðasti aðalfundur var haldinn, hefur stjórnin fundað alls 9 sinnum.

Stjórnarmeðlimir stunda allir fulla vinnu með stjórnarsetu og upp hafa komið vandkvæði við að finna fundartíma sem hefur hentað öllum.

Stuttu fyrir jól sendum við frá okkur starfsáætlun sem var mjög metnaðarfull og ég vona að þið hafið öll fengið í hendur.

Flest öll markmið sem við settum okkur náðum við að framfylgja og önnur voru endurskoðuð.

Við sendum  kynningarbréf um félagið í janúar á allar sveitarstjórnir í landinu, héldum  hádegisverðarfundi einu sinni í mánuði frá áramótum þar sem við fengum til okkar góða gesti og ráðrúm fyrir fagspjall sem voru bæði ágætlega sóttir og vel heppnaðir.

Þeir sem héldu erindi á þessum hádegisverðarfundum voru: í janúar kom Salome Þórisdóttir formaður þroskaþjálfafélags Íslands sem fjallaði um uppbyggingu nýs félags.

Í febrúar var það undirrituð sem fjallaði um unglinga, þroskaverkefni þeirra og samskipti við fullorðna.

Í mars kom Ásta Möller alþingismaður og fjallaði um ný æskulýðslög.

Í maí heimsótti Linda Udengaard æskulýðs- og forvarnafulltrúi Kópavogs okkur með erindi um “Þróun og aðferðafræði félagsmiðstöðva”.

Í vetur höfum við unnið að uppsetningu  heimasíðu félagsins sem opnuð verður hér í dag.

Til félagsins var leitað eftir umsögn um ný æskulýðslög af hálfu Menntamálanefndar Alþingis. Félagið skilaði inn umsögn um lögin. Í framhaldi af því var stjórn boðuð á fund Menntamálanefndar til að gefa munnlega umsögn um ný æskulýðslög.  Við fórum tvö á þann fund, ég og gjaldkeri félagsins, Héðinn Sveinbjörnsson.

Það er alveg ljóst að þó svo að annasamt starfsár sé að baki, þá er enn margt ógert.  Það má líka segjast að veturinn hefur að miklu leyti farið í að átta sig á því hvernig maður starfrækir félag af þessu tagi, hvaða áherslur eigi að liggja til grundvallar og hvaða leiðir séu færar.  Slíkt krefst umræðu og vangaveltna.  Því hafa stjórnarfundirnir verið allt annað en lognmollulegir, við höfum skipts á skoðunum, verið ósammála, sammála og allt þar á milli……. en borið gæfu til að komast að niðurstöðu sem við höfum verið sátt við.

Framundan er spennandi starfsár.  Ný heimasíða sem við bindum miklar vonir við að nýtist okkur enn frekar til kynningar á félaginu og skoðanaskipta félagsmanna.

Við höfum sett okkur nokkur yfirmarkmið fyrir næsta starfsár og þau eru:

Að félagsmönnum fjölgi í að minnsta kosti 70.

Að setja okkur í samband og samvinnu við sambærileg fagfélög á Norðurlöndum

Að halda samstarfsfund í haust með stjórn FÍÆT, SAMFÉS.

Að FFF fari út á landsbyggðina og kynni félagið fyrir bæjarstjórnum og

starfsfólki í frítímaþjónustu viðkomandi staða.

Að auki mun stjórnin að sjálfsögðu vinna áfram að þeim markmiðum sem fram koma í lögum félagsins.

Í gær þriðjudag 6.júní var stjórnin boðuð á fund í Menntamálaráðuneytinu þar sem fjallað var um ýmiss samvinnuverkefni félagsins og ráðuneytisins.  Má þar nefna kynningar fyrir félagsmenn um bókina “Verndum þau” sem er nýkomin út og fjallar um illa meðferð á börnum og viðbrögð fagfólks við því.  Einnig ræddum við um umsögn fagfélagsins um ný grunnskólalög og þá sérstaklega þá grein gömlu laganna sem bundið hefur hendur okkar í húsnæðismálum fyrir frítímastarf.

Margt fleira spennandi var rætt á þessum fundi sem stjórnin mun nú ræða á vinnudegi og skoða aðkomu félagsins að þessu samstarfi.

Við erum full tilhlökkunar að takast á við þau verkefni.

Það er okkar bjargfasta trú að félag fagfólks í frítímaþjónustu eigi eftir að vaxa enn frekar og dafna.  Félagið verður samt aldrei stærra né sterkara en félagsmennirnir sem í því eru.

Því hvet ég ykkur að bæði senda inn erindi og taka vel þeim erindum sem berast frá okkur og vinna með okkur að þessum spennandi verkefnum sem eiga eftir að skipta okkur öll miklu máli í framtíðinni.

Lifið heil.”

Spurningar: Með hverjum sátum við fundinn og að hvaða frumkvæði var hann? Erlendur og Líney sátu fundinn og frumkvæðið kom frá Ráðuneytinu.

Reikningar félagsins:

Héðinn fór yfir stöðu mála. Eins hvað hefur verið að koma inn og fara út af reikningnum okkar eftir áramótin. T.d. heimasíðan.

Hafsteinn bendir á að stjórn eigi að leggja sig fram við að komast hjá seðilgjöldum.

Reikningar samþykktir með lófaklappi.

Starfsáætlun og fjárhagsáætlun næsta árs:

Steingerður fór yfir markmiðin og ræddi um vinnudag stjórnar. Stjórn kemur til með að sækjast eftir styrkjum. Svo verður send út til félagsmanna síðar.

Árgjald:

Margrét ræðir um hvort að fundarmenn telji að hækka eigi félagsgjöldin. Hafsteinn talar um að félagið sé ekki með neina “þjónustu” og eigi að einbeita sér að því að hækka höfuðstólinn á félagsmönnum frekar en peninga. Sóley telur að þeir sem eru reiðubúnir til þess að greiða hærra árgjald séu nú þegar gengnir í lið við félagið. Nýjir meðlimir séu kannski ekki jafn reiðubúnir til þess. Eygló kemur með tillögu að heimasíðustyrktarsjóði. Árni bendir á að íth sé reiðubúnir til þess að setja inn sitt logó með tengli til þeirra. Að linkarnir séu kostaðir. Eru búnir að kaupa hjá ítk og ítr. Gísli Árni leggur til að stjórn stofni menningar-og kynningarsjóð. Árni talar um að félagsgjöld gætu verið prósentuhlutfall af launum félagsmanna.

Árgjald helst óbreytt.

Skrifleg tillaga: Stofnaður verði kynningar-og markaðssjóður FFF. Við innheimtu á árgjaldi verði félagsmönnum gefin kostur á að greiða aukalega 1500kr með sama greiðsluseðli. Gísli Árni og Eygló.

Tillaga samþykkt einróma.

Lagabreytingar og skipulag:

Engar tillögur hafa borist.

Kosning stjórnar og varamanna:

Stjórnin býður sig öll fram. Enginn býður sig fram á móti henni og stjórn er kosinn með lófaklappi.

Kosning skoðunarmanna reikninga:

Árni Guðmundsson og Hafsteinn Snæland gefa báðir kost á sér og eru kosnir með lófaklappi.

Önnur mál:

Eygló þakkar stjórn fyrir störf sín.

Hafsteinn vill skoða hvort mögulegt sé að fjölga félagsmönnum í 70. manns. Margrét svarar því að við/FFF séu að fara út á landsbyggðina og kynna fyrir fólki innan geirans.

Sóley vill að stjórn boði umsjónarmenn frístundaheimila á fund til kynningar á FFF.

Eygló bendir á að við öll verðum að halda fána FFF uppi í okkar starfi.

Eygló vill hvetja stjórnina til þess að nýta krafta félagsmanna.

Opnun heimasíðu félags fagfólks í frítímaþjónustu.

Árni Guðmundsson opnar formlega heimasíðuna sem fyrsti stofnfélagi FFF við mikinn fögnuð fundarmanna.

Nilla fór yfir efni síðunnar. Mikil umræða skapaðist um nýtingu heimasíðunnar og allir hvattir til þess að senda inn efni.

Umræða um skammstöfun félagsins.

Fundi slitið kl. 13.05