Stofnfundur Félags fagfólks í frítímaþjónustu – FFF
Miðbergi, Reykjavík, 28. maí 2005
Dagskrá
- Skráning stofnfélaga
Í upphafi fundar var fundarmönnum boðið að fylla út umsókn um aðild að FFF.
- Inngangur, setning fundar, kosning fundarstjóra og fundarritara
Eygló Rúnarsdóttir bauð fundargesti velkomna og lagði til að Gísli Árni Eggertsson stýrði fundi og Andri Ómarsson ritaði fundargerð stofnfundarins. Það samþykkt með lófaklappi.
Gísli Árni tók við stjórn fundarins. Alls eru 28 mættir.
- Kynning á starfi hópsins
Sóley Tómasdóttir kynnti starf hópsins sem vann að undirbúningi og stofnun FFF.
- Fyrirspurnir – Hópurinn í heild sinni
Guðbjörg, nemi í tómstundafræði við KHÍ, spurði um þá sem starfa með öldruðum og fötluðum í frítímanum. Þeir hafa að sjálfsögðu rétt til aðildar að félaginu en starfa hjá Félagsþjónustunni.
- Lögin kynnt og samþykkt
Eygló Rúnarsdóttir kynnti lög FFF og fór yfir greinargerð með þeim.
Gísli Árni las yfir Lög FFF og óskaði eftir ábendingum.
Varðandi fyrstu grein: Hafsteinn Snæland spyr um orðið frítímaþjónustu. Eygló svaraði því til að innan sveitarfélaga er starfsemi félagsmiðstöðva þjónusta.
Gísli Árni lýsir því yfir að enska orðið sé afskaplega amerískt og hafi aðra merkingu í Evrópu og Skandinavíu. Bendir á orðin Youth workers og open youth work úr Hvítbók Evrópusambandsins en finnst ekki liggja á að skilgreina alþjóðlegt heiti. Hrafnhildur svaraði því að tveir Bretar og enskukennari hefðu bent á það sama liðna nótt. Nafnið er hinsvegar komið frá alþjóðlega heiti tómstundafræðinámsins í Kennaraháskólanum. Undirbúningshópurinn leggur til að taka alþjóðlega heitið út.
Margréti úr Selinu finnst Youth workers association hljóma vel, og það skiptir máli.
Greinin samþykkt með þeim ábendingum sem komnar eru.
Varðandi aðra grein: Helgi hjá ÍTR spyr hvort eigi að einskorða félaga við starfsfólk sveitarfélaga. Eygló svarar að félagið sé sprottið upp úr starfi sveitarfélaga og fyrst um sinn ætti að einskorða félaga við starfsmenn sveitarfélaga sem starfa á vettvangi frítímans. Linda ÍTK styður greinina.
Greinin samþykkt með þeim ábendingum sem komnar eru.
Varðandi þriðju grein: Hafsteinn spáir í hvort ætti að setja inn eitthvað meira conkret varðandi lagasetningu í frítímaþjónustu. Eygló bendir á að markmið félagsins séu opin en aðalfundur, félagsfundur og stjórn móti frekar aðgerðarmarkmið. Trausti bendir á að ekki séu allir sammála því að setja lög um frítímaþjónustu. Linda ÍTK veltir því fyrir sér hvort það eigi að vera markmið að kanna eigi möguleika á stofnun stéttarfélags. Sóley finnst flott að hafa þetta þarna, félagið hefur alltaf þessa pressu á sér að stofna stéttarfélag. Fagfélag sé iðulega leiðin að stéttarfélagi. Linda vill frekar að aðalfundur samþykki ályktun þessa efnis. Hafsteinn er sammála Lindu. Árni bendir á varðandi næstsíðasta markmiðið að efla eigi rannsóknir, menntun og hið akademíska umhverfi en ekki frítímaþjónustuna sjálfa. Halla spyr hvað sé fag.
Greinin samþykkt með þeim ábendingum sem komnar eru.
Varðandi fjórðu grein: Nillu í Selinu finnst vanta félagsmála inní. Sóley bendir á að allt flokkast þetta undir félagsvísindi. Sigrúnu hjá ÍTR spyr um þá sem starfa á skrifstofum frístundamála. Linda spyr um 3 ára starfsreynsluna, er þetta hlutastarf, 3 ára starfsreynsla á 50 ára tímabili. Eygló segir að hópurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu og vinnuumhverfið sé flókið. Fagfélagið verði bara sterkara því fleiri sem komi inní það. Sé sett inn starfshlutfall útilokar það minni sveitarfélög. Hafsteinn spyr um aukaaðildina. Geta þeir sem er í námi fengið aukaaðild ef þeir starfa ekki í frítímaþjónustu. Svarið er nei. Fólk þarf að borga félagsgjald og ólíklegt að þeir vilji vera í félaginu. Linda spyr um þá sem starfa bara í 9 mánuðu. Miðað við þá sem hafa frítímaþjónustu að aðalstarfi.
Greinin samþykkt með þeim ábendingum sem komnar eru.
Varðandi fimmtu grein (sem er merkt sjötta grein í úthendi): Gísli Árni kemur með smá athugasemd um uppröðun. Hafsteinn spyr um hvers vegna stjórnarmenn séu kosnir til tveggja ára en formaður bara til eins árs. Héðinn segir þetta gert til þess að reyna að halda fólki í stjórn, að það detti ekki allir út í einu. Linda bendir á hvort ætti að kjósa tvo til eins árs og tvo til tveggja ára. Hafsteinn bendir á að á fyrsta aðalfundi ætti að kjósa tvo til eins árs og tvo til tveggja ára og svo á tveggja ára fresti eftir það.
Greinin samþykkt með þeim ábendingum sem komnar eru.
Varðandi sjöttu grein (sem er merkt fimmta grein í úthendi): Linda bendir á ákvæði um að helmingur félagsmanna þurfi að mæta á aðalfund til þess að hann sé löglegur. Eygló bendir á að gerist það sé boðað til aukaaðalfundar og hann sé löglegur þó það mæti einn. Gísli Árni er algjörlega ósammála þessu ákvæði og bendir á að flest stéttarfélög hafi haft þetta inni áður fyrr en hafi nú tekið þetta út. Hafsteinn bendir á að þetta geti verið takmarkandi fyrir starf félagsins. Bjarney spyr um af hverju aðalfundur þurfi að vera í maí, þá séu félagsmenn uppteknir. Sóley segir okkur alltaf vera upptekin. Eygló bendir á að fjöldatakmörkin eigi að gera félagið öflugra. Lindu Selinu finnst við ekki þurfa að takmarka okkur í lögum, auðvitað eigi aðalfundur að vera vel sóttur. Hafsteini finnst helmingurinn erfiður í framkvæmd. Linda ÍTK segir þetta fagfélagið okkar, ætlum við að starfa í því komum við og það þarf ekki að þvinga okkur til þessi. Gísla Árna finnst vanta sérstakan lið sem heitir kosning í nefndir sem eigi að koma á undan skoðunarmönnum eða önnur mál. Halla ÍTR spyr um fjarfundabúnað á aðalfundi.
Greinin samþykkt með þeim ábendingum sem komnar eru.
Varðandi sjöundu grein: Gísla Árna finnst gott að hagnaði sé varið í þágu félagsins.
Greinin samþykkt með þeim ábendingum sem komnar eru.
Varðandi áttundu grein: Engar athugasemdir.
Greinin samþykkt með þeim ábendingum sem komnar eru.
Varðandi níundu grein: Andri ÍTH og Gísli Árni bendir á að aðalfundur sé ekki aðalfundur nema til hans sé löglega boðað.
Greinin samþykkt með þeim ábendingum sem komnar eru.
Varðandi tíundu grein: Gísli Árni segir að það eigi að afhenda Barnaheillum, ekki Barnaheill. Linda ÍTK bendir á hvað eigi að gera verði barnaheill ekki til. Á ekki bara að segja líknarmála. Steingerður benti á hvort það eigi að vera 2/4 félagsmanna eða fundarmanna sem þurfi að samþykkja félagslit. Það eru 2/3 félagsmanna sem þurfa að gera það. Gísli Árni bendir á að ætli félagið að sameinast öðru þurfi þá að slíta félaginu og gefa Barnaheillum eignirnar. Félagið þarf að geta tekið eignir með inní annað félag. Eygló segir að stundum sé það þannig að það þurfi tvo aðalfundi til að slíta félagi.
Greinin samþykkt með þeim ábendingum sem komnar eru.
Hafsteinn spyr um það hvað gerist núna ef við samþykkjum lögin. Gísli Árni segir að samþykkjum við þau erum við búin að stofna félag. Síðan er hægt að breyta lögunum á aðalfundi. Umræða um þetta.
Tillagan um að stjórn taki til starfa og aðalfundur félagsins verði haldinn í haust samþykkt með 13 atkvæðum / Móti 2 / Sitja hjá 5
Lög FFF samþykkt einróma og fagnað með miklu lófataki.
- Drög að siðareglum kynnt
María Björk Ingvadóttir kynnti siðareglur nýstofnaðs Félags fagfólks í frítímaþjónustu.
Hafsteinn hrósar frábæru plaggi. Linda spyr um starfssvið siðanefndar sem líklegt er að verði stofnuð. Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hafi t.d. mjög víðtækt svið en aðrar siðanefndir starfa eftir þrengri reglum.
- Kosning stjórnar
-
- Formaður
Steingerður Kristjánsdóttir, ÍTR, býður sig fram og hún kjörin með lófaklappi
- Fjórir stjórnarmeðlimir
Héðinn Sveinbjörnsson, ÍTK.
Sóley Tómasdóttir, ÍTR.
Trausti Jónsson, ÍTR.
Margrét Sigurðardóttir, Selinu.
Þau kjörin með lófaklappi.
- Þrír til vara
Hrafnhildur Ástþórsdóttir, ÍTK.
Andri Ómarsson, nemi í KHÍ og starfsmaður ÍTH.
Nilsína Larsen Einarsdóttir, nemi í KHÍ og starfsmaður í Selinu.
Þau kjörin með lófaklappi.
- Kosning skoðunarmanna reikninga
María Björk Ingvadóttir og Eygló Rúnarsdóttir.
- Fundarslit
Undirbúningshópnum þakkað fyrir sín störf, Gísli Árni biður nýkjörinn formann, Steingerði Kristjánsdóttur, að slíta stofnfundi FFF.