Námskeið í að nota Litla Kompás

Í tilefni af útgáfu bókarinnar Litli kompás, handbók um mannréttindamenntun fyrir börn á aldrinum 7 – 13 ára, stendur Æskulýðsvettvangurinn og Félag fagfólks í frítímaþjónustu með stuðningi frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu fyrir fimm námskeiðum í notkun á bókinni.

Litli kompás er handbók um mannréttindamenntun fyrir börn sem nýtist fagfólki í æskulýðsmálum og öllum þeim sem vinna með börnum. Í handbókinni er fjallað um lykilhugtök á sviði mannréttinda og réttinda barna. Kjarni bókarinnar er 40 fjölbreytt verkefni sem byggjast á virkum kennsluaðferðum og er ætlað að hvetja og örva áhuga og vitund barna um mannréttindi í eigin umhverfi. Verkefnin eiga ennfremur að þroska gagnrýna hugsun, ábyrgð og réttlætiskennd og stuðla að því að börn læri að grípa til aðgerða og leggja sitt af mörkum til hagsbóta fyrir samfélagið. Auk þess er í bókinni fræðileg umfjöllun um þrettán lykilatriði mannréttinda, svo sem lýðræði, borgarvitund, kynjajafnrétti, umhverfismál, fjölmiðla og ofbeldi.

Kennari á námskeiðinu er Jóhann Þorsteinsson, M.Ed. í menntunarfræðum og sviðsstjóri æskulýðssviðs KFUM og KFUK á Íslandi.

Námskeiðin fara fram:

  • Miðvikudagur 17. september kl. 13.00 – 17.00 í félagsheimili Keflavíkur 2. hæð, Sunnubraut 34, Reykjanesbær.
  • Miðvikudagur 24. september kl. 13.00 – 17.00 í sal björgunarsveitarinnar Hérað, Miðási 1 – 5, Egilsstöðum.
  • Miðvikudagur 8. október kl. 14.00 – 18.00 í Tíbrá, aðsetri Ungmennafélags Selfoss, Engjavegi 50, Selfoss.
  • Fimmtudaginn 9. október kl. 13.00 – 17.00 í Hlöðunni, frístundamiðstöð í Gufunesbæ við Gufunesveg, 112 Reykjavík.
  • Miðvikudaginn 22. október kl. 13.00 – 17.00 í Rósenborg, Skólastíg 2, Akureyri.

Skráning fer fram á netfanginu [email protected] Við skráningu þarf að koma fram nafn, netfang og starfsvettvangur. Þátttökugjald er 1000kr. og greiðist í upphafi námskeiðs. Innifalið í þátttökugjaldi eru léttar veitingar.