GÓÐUR HÁDEGISVERÐARFUNDUR UM STÖÐU FRÍSTUNDAÞJÓNUSTU

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, var gestur á fyrsta hádegisverðarfundi FFF þetta haustið föstudaginn 20. nóvember. Til fundarins mættu rúmlega 20 manns. Halldór sagði að staða sveitarfélaga væri mikið breytt eftir hrun. Markmiðið væri þó að grunnþjónusta skerðist ekki. Hvað grunnþjónusta er hefur hinsvegar verið ágreiningsefni og því var Guðjón Bragason, lögfræðingur, fenginn til þess að leiða vinnu starfshóps á vegum SÍS sem skilgreindi grunnþjónustu sveitarfélaga. Sitt sýnist hverjum eins og áður segir en úr varð viðmiðunarplagg. Grunnþjónusta er fyrst og fremst það sem er lögbundið, s.s. grunnskóli og félagsþjónusta. Leikskólar eru í plagginu flokkaðir sem grunnþjónusta þó leikskólastigið sé ekki lögbundið. Tónlistarskóli og frístundastarf er ekki grunnþjónusta. “Samkvæmt IX. kafla félagsþjónustulaganna skulu sveitarfélög sjá til þess að það sé skipulagt forvarnastarf í unglingamálum. Félagsmálanefnd á að sjá um þá þætti unglingaþjónustunnar sem varða málefni einstaklinga, t.d. ráðgjöf, útideildarstarfsemi (leitarstarf) og rekstur unglingaathvarfa eftir því sem þörf er á. Heimilt er að fela félagsmálanefndum umsjón með æskulýðs- og íþróttamálum í umboði sveitarstjórna, þ. á m. rekstur félagsmiðstöðva, tómstundastarf í skólum og rekstur mannvirkja og aðstöðu fyrir íþróttastarfsemi. Grunnþjónusta sveitarfélaga við börn og unglinga, á grundvelli félagsþjónustulaganna, felst samkvæmt ofangreindu í því að reka barnaverndarstarf í samræmi við barnaverndarlög og sjá til þess að fyrir hendi séu dagleg vistunarúrræði fyrir börn til að tryggja þeim þroskavænleg uppeldisskilyrði.Tómstunda- og forvarnastarf er einnig hluti grunnþjónustunnar en sveitarfélög hafa víðtækt svigrúm til að skipuleggja það starf eftir aðstæðum og þörfum á hverjum stað.” http://www.samband.is/files/271380581skilgreining%20%C3%A1%20grunn%C3%BEj%C3%B3nustu.pdf Í máli Halldórs kom fram að það fer eftir því hvað það þarf að skera mikið niður á hverjum stað hvað eftir stendur. Þjónusta við sjúklinga, aldraða og börn á þó alltaf að vera í forgangi. Halldór viðurkenndi að málefni frístundaþjónustunnar væru ekki mikið rædd hjá sambandinu en stjórnin hefur átt fund með Félagi íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa. Á dögunum var svo haldinn fundur með menntamálaráðherra þar sem óskað var eftir víðtæku endurmati á verkefnum sveitarfélaga, m.a. því sem snýr að íþrótta- og æskulýðsmálum. Á fundinum voru lagðar fram sjö spurningar sem bíða svörunar. Áhugi var hjá Halldóri að bæta samstarf á vegum Sambandsins um frístundaþjónustuna. Á fundinn kom einnig formaður Æskulýðsráðs, Óskar Dýrmundur Ólafsson, sem tók virkan þátt í umræðunum og upplýsti m.a. um endurskoðun á starfi Æskulýðsráðsins og stefnumótun þess í æskulýðsmálum.