Frístundir og fagmennska – Rit um málefni frítímans er komið út

Nú er stór áfangi í höfn en Frístundir og fagmennska – Rit um málefni frítímans er komið út. Ritið er gefið út af Félagi fagfólks í frítímaþjónustu, Félagi íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi og Rannsóknarstofu í tómstundafræði með stuðningi Æskulýðsráðs, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Bakhjarlssjóðs Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.

Fyrirhugað er að gefa ritið út prentað í takmörkuðu upplagi vegna áskorana frá fagfólki á vettvangi þar um. Þeir sem hafa áhuga á að eignast prentað eintak geta lagt inn pöntun á rafrænu eyðublaði á vefnum https://goo.gl/forms/yuPY9xqy5Eydxa6B3 í síðasta lagi 2. mars nk. Bókin verður seld á kostnaðarverði eða 3.400.- með sendingarkostnað innifalinn og yrði afhent í mars.

Ritið má annars nálgast hér: http://menntavisindastofnun.hi.is/sites/menntavisindastofnun.hi.is/files/fristundir_og_fagmennska_utgafa.pdf

Við hvetjum ykkur til að kynna útgáfuna á ykkar vettvangi.

Ritið á rætur í samtali aðila á vettvangi frítímans til margra ára. Haustið 2011 ákváðu FÍÆT og FFF að leita eftir samstarfi við námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ um samstarf um útgáfu rits um frístundastarf. Markmið með útgáfunni er að styðja við þá sem vinna að félags- og tómstundastarfi á Íslandi, hvort sem er hjá félagasamtökum eða opinberum aðilum. Í ritinu er leitast við að kortleggja stöðu og starfsumhverfi félags- og tómstundastarfs á Íslandi. Ritinu er jafnframt ætlað að efla og hvetja þá sem starfa á vettvangi til dáða, vera uppspretta ígrundunar um eigið starf á vettvangi og stuðningur við þróun fagvitundar og fagstarfs.

Ritið er í tveimur hlutum. Fyrri hluti inniheldur umfjöllun um frístundir í tengslum við ákveðin þemu en þau eru félagsuppeldisfræði, einelti, menntun, lýðræði, lýðheilsa og barnasáttmálinn. Sá hluti er ætlaður öllum þeim sem koma með einum eða öðrum hætti að frístundastarfi, hvort sem um er að ræða opinbera aðila, félagasamtök eða aðra. Seinni hluti ritsins er helgaður frístundaþjónustu sveitarfélaga og inniheldur fjóra kafla þar sem fjallað er um frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, ungmennahús og félagsstarf og félagsmiðstöðvar eldri borgara. Sá hluti gefur yfirlit yfir starfsemina og lýsir upphafi og þróun starfsins, grunnhugmyndafræði, stöðu mála í dag, helstu áskorunum og framtíðarsýn.

Það er von okkar sem að verkinu standa að ritið mæti að einhverju leyti þeirri þörf sem verið hefur fyrir umfjöllun um frístundastarf á Íslandi.

Með bestu kveðjum,ritstjórn Frístunda og fagmennsku – Rits um málefni frítímans
Alfa Aradóttir, Eygló Rúnarsdóttir og Hulda Valdís Valdimarsdóttir