Fundargerð aðalfundar FFF 2014

Aðalfundur FFF 22. maí 2014 kl. 17:00 á Kaffi Sólon
Stungið upp á Heiðrúnu Janusardóttur sem fundarstjóra – samþykkt.
Stungið upp á Guðrúnu Björk sem fundarritara – samþykkt.

Dagskrá aðalfundar:

1. Skýrsla stjórnar flutt af formanni félagsins
Á aðalfundi félagsins þann 15. maí var ný stjórn kosin. Hulda Valdís Valdimarsdóttir, þáverandi formaður, gaf kost á sér til áframhaldandi setu sem formaður og var sjálfkjörin. Guðrún Björk Freysteinsdóttir og Helgi Jónsson, sátu sitt seinna ár í stjórn en þau voru kosin í stjórn til tveggja ára á aðalfundi 2012 og voru því sjálfkrafa áfram í stjórn. Hrafnhildur Gísladóttir og Elísabet Pétursdóttir luku sínu seinna stjórnarári eftir að hafa verið kosnar til tveggja ára á aðalfundi 2011. Hrafnhildur bauð sig ekki fram til áframhaldandi stjórnarsetu en það gerði Elísabet og hlaut hún kosningu til tveggja ára. Einnig var Bjarki Sigurjónsson kosinn til tveggja ára og í varastjórn voru kosin þau Guðmundur Ari Sigurjónsson og Nilsina Larsen. Skoðunarmenn reikninga voru kosnir þeir Árni Guðmundsson og Ólafur Þór Ólafsson. Fyrsti fundur nýkjörinnar stjórnar var haldinn 3. júní en samkvæmt lögum félagsins skal stjórn félagsins skipuð formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda og varð skipun stjórnar eftirfarandi:

Formaður: Hulda Valdís Valdimarsdóttir
Varaformaður: Elísabet Pétursdóttir
Gjaldkeri: Helgi Jónsson
Ritari: Guðrún Björk Freysteinsdóttir
Meðstjórnandi: Bjarki Sigurjónsson

Alls hélt stjórnin níu formlega stjórnarfundi, þar af einn vinnufund þar sem m.a. var unnið að starfsáætlun. Stjórnin mótaði áherslur í starfi í kjölfar þeirrar vinnu og eru þau verkefni sem stjórnin vann helst að tíunduð hér fyrir neðan.

Fræðslumál
Fræðslunefnd sem skipuð var í framhaldi af aðalfundi 2012 hélt  starfi sínu áfram á stjórnarárinu og var skipan í nefndina óbreytt en í henni sitja Eygló Rúnarsdóttir, Jakob Þorsteinson og Hulda Valdís Valdimarsdóttir er tengiliður við stjórn. Unnið var að svipuðum markmiðum og sl. vetur en þau voru:

o   Koma með tillögur að fræðslu fyrir félagsmenn.
o   Leggja fram hugmyndir um hvernig best gæti verið að útfæra slíka fræðslu, þ.e. hvar og hvenær slík fræðsla stæði félagsmönnum til boða.
o   Skoða fræðslumál félagsins til framtíðar og koma með hugmyndir þar að lútandi.
o   Vinna að stofnun orðanefndar og taka virkan þátt í starfi nefndarinnar.

Nefndin ákvað að haga sínu starfi með svipuðum hætti og sl. vetur og fundaði einu sinni en var auk þess í mjög reglulegum síma- og tölvupóstsamskiptum. Markmiðin sem nefndinni voru sett náðust að mestu leiti. Lögð var  fram fræðsluáætlun sem samanstóð af Kompás/Compasito vinnustofum, hádegisverðarfundum ásamt námskeiðum í verkefnastjórnun, leiklist í frítímastarfi og um reynslunám.  Aftur var farið í samstarf við tómstunda- og félagsmálafræðibraut í Háskóla Íslands og úr varð samstarf varðandi tvö námskeið. Nefndin setti einnig niður vangaveltur um framtíðina og voru þær þessar helstar:

o   Skoða með hvaða hætti er best að haga áframhaldandi starfi orðanefndar sem búið er að stofna til og fulltrúi FFF á sæti í en starf slíkrar nefndar er mjög mikilvægt fyrir fagvettvanginn.
o   Ákveðin verkaskipting innan fræðslunefndar getur orðið til þess að starf nefndarinnar verður enn skilvirkara.
o   Leita leiða til að virkja félagsmenn í umræðu um áframhaldandi þróun fræðslumála innan félagsins.
o   Halda áfram að skoða farveg fyrir samstarf við aðra aðila sem koma að frístundastarfi hvað varðar fræðslumál, s.s. Samfés og Æskulýðsvettvanginn.

Kompás/Compasito
Félagið fékk styrk í janúar 2012 frá mennta- og menningarmálaráðuneytið vegna námskeiða um mannréttindafræðsluefnið Kompás og Litla Kompás. Markmið námskeiðanna er að kynna hugmyndafræði Kompás fyrir starfsfólki sem vinnur með börnum og ungmennum á vettvangi frítímans.

Fyrirhugað var að halda leiðbeinendanámskeið á þessu stjórnarári í samstarfi við Æskulýðsvettvanginn en því miður varð ekki af því vegna skorts á leiðbeinenda á námskeiðið. Leitað var til nokkurra aðila sem höfðu sótt námskeið hérlendis og erlendis í því að leiðbeina í notkun á Kompás bókinni en því miður sá enginn þeirra sér fært í að taka þetta að sér fyrir félögin. Fulltrúar félaganna funduðu um málið og var tekin ákvörðun um það að leggja fyrir stjórnir félaganna hvort áhugi væri á því að fá inn erlendan leiðbeindanda og vera með lengra leiðbeinendanámskeið nú í haust. Fulltrúi FFF lagði þetta fyrir á stjórnarfundi 11. febrúar 2014 og var samþykkt að skoða þennan möguleika í samstarfi við Æskulýðsvettvanginn þar sem skortur er á leiðbeinendum.  Búið er að finna leiðbeinenda til þess að vera með þetta námskeið og eru því næstu skref að formgera samstarfið við Æskulýðsvettvanginn hvað framkvæmd námskeiðsins varðar. Mennta- og menningarráðuneytið hafði áætlað að gefa út Compasito (Litli Kompás), mannréttinda- og lýðræðisfræðsla fyrir 9-13 ára börn, í mars 2013 en því miður gekk sú áætlun ekki eftir en bókin kom þess í stað út í janúar 2014.

Samstarf
Mikil áhersla var á samstarf af ýmsum toga sl. stjórnarár og þau eru mörg sóknarfærin sem felast í auknu samstarfi þeirra aðila sem starfa með börnum og ungmennum í frítímanum. Hér verður farið yfir helstu samstarfsverkefnin á stjórnarárinu:

o   Félagið á áheyrnarfulltrúa í Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur. Fulltrúar félagsins í ráðinu eru Helgi Eiríksson og Jóhannes Guðlaugsson er til vara.  Sl. ár hafa verið haldnir um það bil þrjátíu fundir og hefur Helgi setið þá flesta en Jóhannes hefur setið þrjá fundi í hans forföllum. Það er mjög mismunandi eftir fundum hvort og hversu mikið málefni frítímans eru til umfjöllunar en hlutverk áheyrnarfulltrúa felst í því að vera málsvari frístundastarfsins þegar málaflokkurinn er til umræðu og gæta hagsmuna þess. Helgi telur mikilvægt að sjónarmið frístundastarfsins eigi rödd á þessum vettvangi en telur þó ákveðið ójafnvægi í hópi áheyrnarfulltrúa þar sem hann er eini fulltrúi frístundastarfsins en skóla- og leikskólastarfið er með tvo fulltrúa hvor.
o   Félagið var fjórða árið í röð samstarfsaðili um Íslenskar æskulýðsrannsóknir en ráðstefnan var haldin 30. nóvember 2013 og þátttaka var góð. Erindi frá erlendum gestum voru nokkur að þessu sinni sem gaf umfjölluninni mikla og góða breidd.
o   Gildandi samstarfssamning vegna aukins samstarfs FFF, Samfés, FÍÆT og SFSÍ hafi því miður ekki í för með sér það aukna samstarf sem vonast var eftir en þarna liggja mörg sóknarfæri.
o   Fulltrúi FFF hitti fulltrúa frá HÍ og FÍÆT vegna áframhaldandi hugmyndavinnu vegna áhuga á því að gefa út handbók fyrir starfsfólk sem vinnur á vettvangi frítímans. Búið er að vinna þarfagreiningu um innihald handbókarinnar en til þess að koma koma vinnunni í betri farveg var ákveðið að sækja um styrk í Æskulýðssjóð til að fjármagna hlutastarf verkefnisstjóra. Styrkumsókn var hafnað og því þarf að íhuga næstu skref en það er álit vinnuhópsins að til þess að verkinu miði áfram sé nauðsynlegt að fá verkefnisstjóra í hlutastarf og skipa ritstjóra og ritstjórn í framhaldinu.
o   FFF ákvað að framlengja um ár styrk til vefmiðilsins Frítiminn.is en hann felst í því að greiða hýsingu á léni vefmiðilsins til eins árs. Fulltrúi stjórnar sat undirbúningsfund vegna stofnunar vefmiðilsins og stjórn FFF á fulltrúa í ritstjórn en meginmarkmið með stofnun Frítíminn.is er að vera umræðuvettvangur um tómstunda- og félagsmálafræði og frítímastarf á Íslandi og kynna rannsóknir á sviði frítímastarfs og telur stjórn að það markmið sé komið vel á veg.
o   Fulltrúi stjórnar sat fund með fulltrúa frá Æskulýðsvettvangnum vegna Kompás/Litla Kompás á haustmánuðum. Fyrirhugað var að fara í samstarf um Kompás og  námskeið en ekki náðist að finna leiðbeinenda fyrir þessi námskeið á önninni en áhugi er að halda samstarfinu áfram hjá báðum félögum.
o   Félagið á fulltrúa í starfshóp á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytissins sem er að skoða þörf fyrir að ramma betur inn starfssemi frístundaheimila en fyrsti fundur hópsins var haldinn 8. maí 2013. Aðalfulltrúi félagsins í hópnum er Þóra Melsted en varafulltrúi er Þorvaldur Guðjónsson. Hópurinn hefur haldið tólf fundi og hyllir nú undir að hann skili tillögum af sér til ráðherra. Margir gestir voru fengnir til fundar við hópinn og einnig stóð hann að gerð könnunar á ýmsum þáttum í starfsemi frístundaheimila en Samband íslenskra sveitarfélaga sá um að senda könnunina út til sveitarfélaganna. Kolbrún Pálsdóttir tók saman skýrslu um niðurstöður könnunarinnar og er hægt að nálgast hana á slóðinni http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/forsidugreinar/nr/7994. Nú nýlega stóð hópurinn fyrir opnum morgunverðarfundi þar sem Kolbrún kynnti niðurstöður könnunarinnar, Guðni Olgeirsson, formaður nefndarinnar, sagði frá störfum hennar og fundargestir tóku þátt í umræðuhópum sem skiluðu af sér niðurstöðum sem hópurinn mun vinna úr. Framundan er að hópurinn fari yfir þær tillögur og vinni skýrslu fyrir ráðherra og tillögur um hver næstu skref ættu að vera varðandi þennan málaflokk.
o   Stjórn FFF sendi nú í vor erindi á þá þingmenn sem stóðu að tillögu til þingsályktunar um löggjöf og starfsskrá félagsmiðstöðva og óskaði eftir að fá að taka þátt í samráði vegna þeirrar vinnu. Í svari við erindinu kom í ljós að ólíklegt væri að það næðist að taka tillöguna fyrir á Alþingi nú í vor og því þarf stjórn að fylgjast vel með hvernig málinu miðar og tryggja þátttöku í vinnunni ef og þegar hún fer af stað.
o   Félagið á fulltrúa í Náum áttum sem er opinn forvarnarhópur um fræðslu og forvarnir. Hópurinn stendur fyrir reglulegaum morgunverðarfundum um málefni sem tengjast forvörnum og velferð barna og ungmenna. Steinunn Grétarsdóttir hefur setið í hópnum í vetur fyrir hönd félagsins.
o   Fulltrúi frá félaginu sat fjórða árið í röð í úthlutunarnefnd almennra styrkja og þróunarstyrkja hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Elísabet Þóra Albertsdóttir var fulltrúi stjórnar í hópnum, sinnti undirbúningi og sat fundi í desember og janúar vegna verkefnisins en úthlutað var úr sjóðnum í apríl 2014. Einnig sat fulltrúi félagsins áfram í starfshóp um Hvatningarverðlaun hjá skóla- og frístundasviði og var Hulda Valdís Valdimarsdóttir fulltrúi stjórnar. Hún sat einn fund vegna verkefnisins auk þess að sinna undirbúningi sem fólst í yfirlestri og mati á þeim verkefnum sem voru tilnefnd. Hvatningarverðlaunin voru afhent 7. maí sl.

Almennt kynningarstarf
Félagið tók nýja heimasíðu í gagnið sl. haust og hýsti hana á nýjum stað sem sparaði félaginu talsverða fjárhæð. Einnig var nú hægt að skrá sig í félagið rafrænt í gegnum heimasíðuna sem gerði umsókn í félagið aðgengilegri fyrir áhugasama. Námskeiðshald og hádegisverðarfundir voru nýttir til kynningarstarfs fyrir félagið auk þess sem félagið var með sérstaka kynningu fyrir nemendur í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands. Fésbókarsíða var einnig nýtt til að kynna félagið og dagskrá á vegum þess. Eins og fyrr er áhugi hjá stjórn að auka markvisst kynningarstarf og leita leiða til að fjölga félögum en því miður hefur kynningarstarfið ekki verið nægilega markviss og mörg sóknarfæri sem liggja þar. Félagið fékk tækifæri til að taka þátt í skemmtilegu verkefni sem nýttist félaginu til kynningar en keypt var auglýsing í tengslum við útgáfu á spili sem kallast „More then one story“. Félagið á auglýsingapil í stokknum og keypti auk þess eintök af spilinu til að senda öllum félögum í FFF. Sem hluti af kynningarstarfi félagsins kviknaði einnig hugmynd sem kynnt verður á aðalfundi félagsins 2014 um að bjóða öllum þeim sem útskrifast úr tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands inngöngu í félagið og frítt árgjald fyrsta árið en slíkt er liður í því að kynna félagið fyrir þeim sem starfa á fagvettvangnum.

Vinnuhópur vegna samstarfs og markmiðssetningar
Í kjölfar umræðna á síðasta aðalfundi ákvað stjórn að setja saman vinnuhóp sem hafði það að markmiði að skoða möguleika á samstarfi við nýstofnað stéttarfélag tómstundafræðinga en fara einnig yfir markmið félagsins og  hvort þörf teljist á því að uppfæra og/eða breyta þeim. Tengiliður vinnuhópsins við stjórn var Guðmundur Ari Sigurjónsson en auk hans voru í hópnum Bjarki Sigurjónsson, Árni Guðmundsson og Margrét Sigurðardóttir. Hópurinn hittist fjórum sinnum og fór yfir markmið félagsins og inntökuskilyrði og verður afrakstur vinnunnar kynntur á aðalfundi 2014.

Lokaorð frá formanni

Á þessu stjórnarári var unnið jafnt og þétt að fyrirliggjandi verkefnum hjá félaginu s.s. gerð nýrrar heimasíðu, skipulagningu fræðslustarfs, endurskoðun á markmiðum félagsins, þátttöku í samstarfi og samstarfsverkefnum og stjórn fór einnig á hinn árlega upplýsingafund í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Eins og fyrr lagði stjórn mikla áherslu á þátttöku í umræðum og samstarfi við þá sem starfa á vettvangnum. Þar eru sóknarfærin mörg og verkefni næg og þá ekki síst að koma útgáfu tómstundahandbókar í farveg, halda áfram að vinna að námskeiðshaldi í tengslum við Kompás og Litla Kompás og endurskoða siðareglur félagsins. Málefni frístundaheimila voru áberandi á stjórnarárinu og umræða um hvernig farsælast sé að vinna þeim brautargengi hefur ekki enn verið lokið. Beðið er eftir að tillaga til þingsályktunar um starfsemi félagsmiðstöðva verði lögð fyrir á Alþingi og mun félagið að sjálfsögðu fylgja því máli fast eftir. Í fyrsta og vonandi eina sinn þurfti stjórn að víkja félaga úr félaginu í kjölfar dóms sem viðkomandi hlaut og þar kom mikilvægi siðareglna berlega í ljós. Það er ekki hægt að segja að verkefna- og/eða hugmyndaskortur hái félaginu en helsta hindrunin er kannski tímaskortur þar sem allt starf á vegum þess er unnið í sjálfboðastarfi samhliða öðrum störfum félagsmanna. Formaður vill nota tækifærið og þakka ánægjulega og gott samstarf við stjórn og aðra félagsmenn á liðnu stjórnarári.

2. Reikningar félagsins
Ritari fer yfir ársreikninga félagsins og fundarstjóri  óskar eftir spurningum um ársreikninga. Umræður.

Reikningar eru samþykktir með fyrirvara um að Árni Guðmundsson annar skoðunarmaður reikninga skrifi undir en hann er staddur erlendis.

3. Starfsáætlun og fjárhagsáætlun næsta árs
Farið yfir markmið félagsins, kynningarmál,  fyrirkomulag fræðslumála, vinnu Ráðuneytishóps, tillögu vegna þingsályktunar, vinnu við tómstundahandbók, samstarf um málefni frítímans og ráðstöfun fjármagns félagsins þar sem hagsýni er meginmarkmiðið.

4. Árgjald
Stjórn leggur til óbreytt árgjald. 2500 krónur + kostnaður.

5. Lagabreytingar og skipulag
Engar lagabreytingartillögur hafa borist félaginu.

5. Kosning stjórnar og varamanna
Guðmundur Ari býður sig fram til formanns og segir frá sínum hugðarefnum varðandi framtíð félagsins. Vill sjá meiri áherslu á fræðsluna. Guðmundur Ari er sjálfkjörinn formaður.

Elísabet og Bjarki kosin til tveggja ára á síðasta aðalfundi og sitja því áfram í stjórn.

Guðrún Björk og Helgi eru búin að vera í stjórn í tvö ár og detta því út úr stjórn. Því vantar nýja félaga í stjórn.

Margrét mælir með Katrínu Vignisdóttir sem meðstjórnanda með fyrirvara um að umsókn hennar í félagið verði samþykkt á næsta stjórnarfundi. Heiðrún Janusar býður sig einnig fram sem meðstjórnanda. Einróma samþykkt.

Hulda Valdís og Guðrún Björk hafa boðið sig fram í varastjórn. Samþykkt.

6. Kosning skoðunarmanna reikninga
Árni Guðmundsson og Ólafur Þór bjóða sig fram sem skoðunarmenn reikninga.  Samþykkt ásamt áskorun um rösk og vönduð vinnubrögð.

7. Önnur mál

  1. Hulda Valdís

Upp kom sú hugmynd að bjóða þeim sem eru að útskrifast sem tómstunda- og félagsmálafræðingar ársaðild sem útskriftargjöf frá félaginu í ár.

Margréti finnst þetta tvíbent þar sem fólk er hér á eigin forsendum og hún vill vita forsendurnar. Guðmundur Ari segir að ætlunin sé að senda þeim kynningarbréf á félaginu og sendi svo boltann til þeirra um að þau verði að skrá sig á heimasíðuna.  Umræður. Margréti  finnst að það eigi að senda þeim kynningarbréf en ekki gefa árgjaldið, finnst þetta of örvæntingarfullt.

Ný stjórn mun taka málið upp og ákveða útfærsluna á þessu.

  1. Guðmundur Ari

Myndaður var vinnuhópur til að fara yfir inntökuskilyrði og markmið félagsins. Tvær breytingar vill hópurinn leggja til. Félagið er svolítið miðað að börnum og unglingum og það þarf að útvíkka það. Taka út markmið um að stofna stéttarfélag þar sem búið er að koma því verkefni í framvkæmd en setja mögulega inn annað markmið um fræðsluferðir á tveggja til þriggja ára fresti  á vegum félagsins.  Vilji til að víkka inntökuskilyrðin enn meira og þá hægt að sækja um félagsaðild ef viðkomandi starfar á vettvangnum með staðfestingu yfirmanns. Andri vill að félagið veðri opið öllum og fólk geti bara skráð sig á póstlista.  Margrét leggur til að ráðinn sé starfsmaður til að anna störfum félagsins til að félagið verði öflugra. Umræður. Margrét kemur með tillögu um að hópurinn starfi áfram og ný stjórn óski eftir áhugasömum einstaklingum í hópinn. Tekinn verði svo góður hádegisfundur um þetta og undirbúin lagabreytingartillaga. Umræður.

 

  1. Margrét

Situr í Æskulýðsráði og segir frá starfsáætlun sem búið er að vinna ásamt öðrum verkefnum eins og ráðstefnu um Íslenskar æskulýðsrannsóknir. Tveir aðilar í ráðinu tóku að sér að stækka þennan dag í samstarfi við háskólana og vilja hafa þetta eins og ráðstefnu sem laðar jafnvel að samstarfsfélaga á norðurlöndum.  Nú er vilji fyrir því að fá erlenda aðila.

 

Einnig vill Margrét leggja til að félagið ráði inn starfsmann í hlutastarf, 30% ráðningu í 7 mánuði, gera verður verkefnalista sem þessi manneskja klárar. Umræður.

 

Fíæt – kom upp hugmynd hvort ætti að útvíkka FÍÆT á haustfundi en einnig var róttæk hugmynd kynnt og þeim var falið að halda áfram með vinnuna.  Í staðinn fyrir að allir þessir aðalfundir séu á vorin, FÍÆT, Samfés o.fl.  Lagt er til að næsta vor verði þing þar sem öll félögin haldi sína aðalfundi og eru með málstofur, þetta verði heil helgi sem allir geti nýtt sér af þessum vettvangi.  Umræður.

Fundarstjóri þakkar fyrir fundinn og afhendir fráfarandi og nýkjörnum formönnum fundarstjórn.

Þau þakka fyrir góðann fund.

Guðmundur Ari , nýkjörinn formaður, sleit fundi kl. 18.50.