Skýrsla stjórnar 2011-2012

Skýrsla stjórnar Félags fagfólks í frítímaþjónustu starfsárið 2011 – 2012
Á aðalfundi félagsins þann 31. maí 2011  var ný stjórn kosin. Elísabet Pétursdóttir, þáverandi formaður, gaf ekki áfram kost á sér sem formaður en var kosin til tveggja ára setu í stjórn ásamt því að Helgi Jónsson sat sitt seinna ár í stjórn en hann hafði verið kosinn til tveggja ára  á aðalfundi félagsins 2010. Guðrún Björk Freysteinsdóttir var kosin til áframhaldandi setu í stjórn og Hrafnhildur Gísladóttir var nýr fulltrúi í stjórn. Hulda Valdís Valdimarsdóttir var kosinn formaður en hún hafði áður setið í varastjórn félagsins. Í varastjórn félagsins voru kosnir þeir Bryngeir Arnar Bryngeirsson og Unnar Reynisson. Skoðunarmenn reikninga voru þeir Árni Guðmundsson og Ólafur Þór Ólafsson. Fyrsti fundur nýkjörinnar stjórnar var haldinn 29. ágúst og þar fóru formleg stjórnarskipti fram en samkvæmt lögum félagsins skal stjórn félagsins skipuð formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda og varð skipun stjórnar eftirfarandi:
Formaður: Hulda Valdís Valdimarsdóttir
Varaformaður: Elísabet Pétursdóttir
Gjaldkeri: Helgi Jónsson
Ritari: Guðrún Björk Freysteinsdóttir
Meðstjórnandi: Hrafnhildur Gísladóttir

Alls hélt stjórnin tíu formlega stjórnarfundi, þar af einn fund þar sem unnið var að starfsáætlun. Stjórnin mótaði áherslur í starfi í kjölfar þeirrar vinnu og voru þau verkefni sem stjórnin vann að þessi helst:

Kompás
Framhald var á samstarfi félagsins við mennta- og menningarmálaráðuneytið vegna námskeiða um mannréttindafræðsluefnið Kompás. Markmið námskeiðanna er að kynna hugmyndafræði Kompás fyrir starfsfólki sem vinnur með börnum og ungmennum á vettvangi frítímans.
Á haustmánuðum var haldið eitt Kompás-námskeið og styrkur frá fyrra starfsári stjórnar nýttur í þeim tilgangi. Félagið sótti síðan formlega um styrk til mennta- og menningarmálaráðuneytisins vegna Kompás-verkefnisins og fékk í lok janúar úthlutað styrk upp á 1,5 milljónir króna. Í styrkumsókn var gert ráð fyrir því að haldin yrðu fjögur Kompás-námskeið á árinu og þann 24. – 25. apríl var það fyrsta haldið í Reykjavík. Pétur Björgvin Þorsteinsson var leiðbeinandi á  námskeiðunum en hann hefur mikla og víðtæka reynslu af notkun bókarinnar. Mikil ánægja var með námskeiðin og félagið hefur hug á því að bjóða þeim sem farið hafa á námskeiðin upp á stutta vinnufundi til að styðja við áframhaldandi notkun þessa efnis til lýðræðis- og mannréttindafræðslu.
Stjórnin samþykkti að auglýsa eftir aðila innan félagsins til að taka að sér að halda utan um, skipuleggja, kynna og hafa umsjón með frekara námskeiðshaldi og mun hluti að fyrrnefndum styrk fari í að greiða laun vegna þeirrar vinnu.

Compasito
Um er að ræða efni sem er sambærilegt við Kompás en verið er að höfða til þeirra sem eru að vinna með yngri börnum, þ.e. aldurshópnum 7-13 ára, en þetta efni hefur ekki verið þýtt á íslensku. Í samstarfi við Æskulýðsvettvanginn var send áskorun til mennta- og menningarmálaráðneytis og skorað á ráðuneytið að beita sér fyrir því að Compasito væri þýdd á íslensku sem myndi auka möguleika til mannréttinda- og lýðræðisfræðslu fyrir þennan yngri aldurshóp. Það er gleðilegt að segja frá því að nú hefur verið samþykkt að ráðast í þýðingu á Compasito og gert ráð fyrir að efnið verði gefið út á íslensku í mars 2013.

Almennt kynningarstarf
Ákveðið var að uppfæra og prenta kynningarbækling félagsins. Einnig var ákveðið að láta prenta nafnspjöld í nafni félagsins. Stjórnin skipti síðan niður á sig verkum og herjaði á hina ýmsu aðila varðandi kynningar á starfi félagsins og óska um samstarf. Kynningarefni var dreift til nema í tómstunda- og félagsmálafræði í HÍ, til starfsfólks í  frístundamiðstöðvum skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, til þeirra sem tóku þátt í Kompás námskeiðum og annars staðar þar sem tækifæri gafst til.
Unnið var að því að uppfæra félagatal og netfangalista félagsins, stofnuð var fésbókarsíða í nafni félagsins og unnið að því að fá félaga til að miðla efni í vettvangi frítímans með öðrum félögum í gegnum heimasíðu FFF.

Bréfaskriftir og ábendingar
Stjórnin var vakandi yfir allri umfjöllun og fréttaflutningi varðandi málefni sem tengdust frístundastarfi með börnum og ungmennum og sendi nokkrum sveitarfélögum bréf vegna þessa.
Félagið sendi Hafnarfjarðarbæ bréf í tilefni þess að ekki var lögð áhersla á faglega hæfni á vettvangi frítímans þegar verið var að auglýsa eftir starfsfólki í frístundastarf á vegum bæjarins. Af svipuðum ástæðum var sent bréf til skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar í framhaldi af auglýsingu þar sem óskað var eftir starfsfólki í frístundastarf á vegum sviðsins.
Sent var bréf til Borgarbyggðar í tilefni af því að lögð var niður staða íþrótta- og æskulýðsfulltrúa og einnig vegna þess að sveitarfélagið var að vinna að stefnumótun í æskulýðs- og tómstundastarfi. Í bréfinu var lögð áhersla á mikilvægi málaflokksins.
Bréf var sent til sveitafélagsins í Garði í kjölfar umfjöllunar í Fréttablaðinu um áhyggjur starfsfólk í félagsmiðstöðinni yfir því að vera einsamalt á vakt. Lýst var yfir áhyggjum af þeirri stöðu sem starfsfólk var sett í og bent á mikilvægi þess að öryggi barna og starfsmanna sé í fyrirrúmi í félagsmiðstöðvastarfi.
Vegna umfjöllunar Viðskipablaðsins um styrkjaveitingar mennta- og menningarmálaráðuneytisins þar sem vegið var að FFF sendi formaður bréf til ritstjóra blaðsins og harmaði ómálefnalega umfjöllun í blaðinu.
Í samstarfi við FÍÆT og Samfés var óskað eftir því í bréfi til mennta- og menningarmálaráðuneytis að unnið verði að stefnumótun í æskulýðs- og tómstundamálum með sambærilegum hætti og gert hafði verið af ráðuneytinu í stefnumótun í íþróttamálum.
Unnin var stutt samantekt fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið vegna Verndum þau námskeiðanna en fyrsta námskeiðið var haldið árið 2006 og það síðasta á vegum félagsins haustið 2010. FFF hefur haldið yfir 50 slík námskeið og þátttakendur hafa verið um 1100 á tímabilinu. Æskulýðsvettvangurinn hefur nú tekið að sér það verkefni að halda utan um Verndum þau námskeiðin en FFF hefur einbeitt sér að Kompás námskeiðunum, að minnsta kosti í bili.

Samstarf
Mikil áhersla var á samstarf af ýmsum toga sl. stjórnarár og þau eru mörg sóknarfærin sem felast í auknu samstarfi þeirra aðila sem starfa með börnum og ungmennum í frítímanum. Hér verður farið yfir helstu samstarfsverkefnin á stjórnarárinu:
o Stjórnin fundaði með fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytis í september. Farið var yfir ýmis mál sem snerta starf félagsins og samstarf við ráðuneytið, s.s. Kompás, Compasito, íslenskar æskulýðsrannsóknir og öryggismál í æskulýðs- og tómstundastarfi.
o Fulltrúar stjórnar tóku þátt á haustfundi FÍÆT og mennta – og menningarmálaráðuneytis í september þar sem m.a. var áhugaverð umfjöllun um vinnu gegn einelti, lyfjamisnotkun í íþróttum, orkudrykki o.fl.
o Fulltrúi stjórnar sat fund með fulltrúum frá Æskulýðsvettvangnum vegna Kompás í september. M.a. var rætt um áhuga á samstarfi vegna Kompás-námskeiða. Frekara samstarf er fyrirhugað vegna þessa.
o Óskað var eftir því að félagið tilnefndi áheyrnarfulltrúa í Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur. Fulltrúar félagsins í ráðinu eru Helgi Eiríksson og Jóhannes Guðlaugsson er til vara.
o Félagið var annað árið í röð samstarfsaðili um Íslenskar æskulýðsrannsóknir 2011 en ráðstefnan var haldið í annað sinn 18. nóvember 2011. Að þessu sinni var ráðstefnan haldin á laugardegi og hefði þátttaka mátt vera betri en fyrirlestrar og erindi voru afar áhugaverð og vonandi verður ráðstefnan áfram árlegur viðburður.
o Stjórn tók þátt í að útbúa drög að samstarfssamning vegna aukins samstarfs FFF, Samfés, FÍÆT og SFSÍ. Ákveðið var að samningurinn yrði tekinn fyrir á aðalfundum þessara félaga. Meginmarkmið samningsins er að samræma áherslur og verkefni  sem félögin taka að sér og auka samstarf félaganna í þeim tilgangi að stuðla að farsælu og faglegu barna og ungmennastarfi. Sótt var um styrk í Æskulýðssjóð vegna samstarfsverkefnisins og þess kostnaðar sem af auknu samstarfi kann að hljótast fyrir félögin.
o Félagið lagði sitt af mörkum við að verðlauna bestu BA-ritgerðina í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ. Um er að ræða samstarfsverkefni HÍ, skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur og FFF. Verðlaunin hlutu að þessu sinni Sigurgeir Birgisson og Magnús Guðmundsson fyrir Dýnamík – handbók um hópefli og hópeflisleiki.
o FÍÆT óskaði eftir að fulltrúi frá félaginu fengi tækifæri til að kynna fyrir stjórn hugmyndir um gerð handbókar fyrir starfsfólk sem vinnur með börnum og ungmennum á vettvangi frítímans. Alfa Aradóttir fundaði með stjórn, kynnti handbókarhugmyndina og ræddi mögulegt samstarf hinna ýmsu aðila vegna þessa enda um mjög þarft verkefni að ræða.

Nefndarstörf
Félagið á fulltrúa í samráðshópi um málefni frístundaheimila en það er Kolbrún Pálsdóttir aðjunkt og doktorsnemi við Menntavísindasvið HÍ sem leiðir þann hóp en Þóra Melsted félagi í FFF situr í hópnum. Fundað hefur verið með menntamálaráðherra vegna málsins og fyrirhugað er að hitta ráðherra aftur nú í haust.
Félagið á fulltrúa í Náum áttum sem er opinn forvarnarhópur um fræðslu og forvarnir. Hópurinn stendur fyrir fræðslufundum um málefni sem tengjast forvörnum. Elísabet Pétursdóttir tók nýlega við sem fulltrúi FFF í forvarnarhópnum.
Óskað var eftir fulltrúa frá félaginu í úthlutunarnefnd almennra styrkja og þróunarstyrkja hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Guðrún Björk Freysteinsdóttir var tilnefnd af stjórn. Einnig var óskað eftir fulltrúa félagsins í starfshóp um Hvatningarverðlaun hjá skóla- og frístundasviði og var Hulda Valdís Valdimarsdóttir tilnefnd af stjórn.
Lokaorð frá formanni
Fallið var frá áformum um útgáfu fagtímarits á stjórnarárinu, endurnýjun á heimsíðu var frestað í bili og ákveðið eftir yfirlegu að ekki væri þörf á endurskoðun laga og inntökuskilyrða í félagið að svo stöddu. Þetta eru þó allt verkefni sem vert er að taka aftur til skoðunar. Það er mikilvægt að þeir sem sinna frítímaþjónustu séu virkir í umræðu um málaflokkinn og stjórn félagsins hefur lagt áherslu á þátttöku í þeirri umræði og samstarfi við aðra aðila sem starfa á þessum vettvangi. Sóknarfærin fyrir félagið eru ótalmörg hvað varðar kynningar- og fræðslumál, samstarfsverkefni bæði innanlands og utan og síðast en ekki síst þátttöku í stefnumótun í tómstunda- og æskulýðsmálum. Það má segja að það hái félaginu að allt starf á vegum þess er unnið í sjálfboðavinnu samhliða öðrum störfum þannig að það er gríðarlega mikilvægt að leita leiða til að virkja krafta félagsmanna í enn meira mæli en verið hefur ef hægt á að vera að sinna öllum þeim verkefnum sem félagið vill beyta sér fyrir.  Formaður vill að lokum nota tækifærið og þakka stjórn félagsins og öðrum félagsmönnum fyrir afskaplega ánægjulegt samstarf og jafnframt þakka öllum þeim sem lagt hafa félaginu lið á liðnu stjórnarári.

Fyrir hönd stjórnar Félags fagfólks í frítímaþjónustu
Hulda Valdís Valdimarsdóttir