FÉLAGSMIÐSTÖÐVADAGURINN

Í dag, miðvikudaginn 7. nóvember, standa félagsmiðstöðvar ÍTR fyrir félagsmiðstöðvadeginum í Reykjavík. Dagurinn er samstarfsverkefni þeirra 20 félagsmiðstöðva sem starfa í Reykjavík og verða allar félagsmiðstöðvarnar opnar fyrir gesti og gangandi frá kl. 18 til kl. 21 þennan dag. Í tilefni félagsmiðstöðvadagsins var félagsmiðstöðvablaðinu UNG dreift með Fréttablaðinu þriðjudaginn 6.nóvember.

Félagsmiðstöðvadagurinn er nú haldinn þriðja árið í röð og hefur fest sig í sessi í starfi félagsmiðstöðvanna á haustin. Markmið félagsmiðstöðvadagsins er að hvetja áhugasama til að heimsækja félagsmiðstöðina í sínu hverfi og kynnast því sem þar fer fram. Hverfisbúum gefst því kærkomið tækifæri til að kynnast af eigin raun unglingunum í hverfinu og þeim viðfangsefnum sem þeir fást við með stuðningi frístundaráðgjafa í félagsmiðstöðinni.

Undirbúningur í hverri félagsmiðstöð hefur hvílt á unglingaráðum og unglingunum sjálfum ásamt frístundaráðgjöfum. Megináherslan er á framlag og sköpunargleði unglinganna sjálfra. Dagurinn er því kærkomið tækifæri fyrir unglingana sem sækja félagsmiðstöðvastarfið að kynna viðfangsefni sín og áhugamál, sköpunargleði, þekkingu og færni enda unglingar eitt af mótandi menningaröflum samstímans. Dagurinn er því kjörið tækifæri fyrir forvitna unglinga, foreldra, ömmur, afa, systkini og hverfisbúa.

Dagskrá félagsmiðstöðvanna má nálgast á heimasíðum þeirra og á www.itr.is.